Austfirskir lögreglumenn ekki í samskiptum við flugumanninn

markkennedy.jpgAustfirskir lögreglumenn virðast ekki hafa haft nein samskipti við breska flugumanninn Mark Stone sem var í herbúðum mótælenda á Austurlandi sumarið 2005.

 

Þetta kemur fram í svari lögreglunnar á Seyðisfirði við fyrirspurn Agl.is. Þar kemur fram að engin samskipti hafi verið á milli lögreglumanna í umdæminu við manninn þann tíma sem Kárahnjúkavirkjun var mótmælt.

Stone kallaði sig Mark Kennedy og smyglaði sér þannig inn í herbúðir mótmælenda til að geta gefið breskum lögregluyfirvöldum upplýsingar.

Enskir fjölmiðlar hafa greint frá því að Mark hafi komið hingað sumarið 2005. Það hafa Saving Iceland samtökin, sem skipulögðu mótmælin, staðfest.

Mál Stones hefur vakið mikla athygli í Bretlandi, einkum aðferðirnar við að vinna traust mótmælendanna en fram hefur komið að Stone hafi átt í sambandi við þó nokkrar konur í því samhengi.

Eftir að upp komst um hann flúði hann til Bandaríkjanna. Hann segist óttast um líf sitt, bæði af hálfu þeirra sem hann hefur svikið og sín sjálfs.

Hann segir að í farsíma hans hafi verið búnaður til að rekja allar hans ferðir og hann hafi ekki hnerrað án leyfis yfirboðara sinna. Hann segir þá hafa brugðist í að vernda hann eftir að upp um hann komst.

Kærasta Marks kom upp um hann þegar hún fann raunverulegt vegabréf hans. Hann segist ekki hafa notað konur á þann hátt sem lýst hafi verið í enskum fjölmiðlum en hann hafi átt í tveimur alvarlegum ástarsamböndum og þannig farið yfir strikið.

„Ég var í hóp nánast sama fólksins í áratug. Þetta urðu vinir mínir. Þeir studdu mig og elskuðu mig. Það eina sem ég get nú sagt er sannleikurinn. Ég lít ekki á lögregluna sem góðu gaurana eða mótmælendur sem vondu karlana eða öfugt. Bæði lið gerðu góða og slæma hluti.“

Mark var áður flugumaður meðal fíkniefnasala áður en hann færði sig yfir í raðir umhverfismótmælenda. Hann segir hluta þeirra upplýsinga sem hann aflaði hafa verið komið beint í hendur Tonys Blairs, þáverandi forsætisráðherra Bretlands.

Mark segir fleiri flugumenn starfandi í Englandi í dag. Breskir fjölmiðlar hafa sett spurningamerki við upplýsingasöfnun um mótmælendur, en myndir og upplýsingar um um 2.000 manns eru til í sérstökum gagnabanka lögreglunnar. Þeir hafa einnig sett spurningamerki við kostnaðinn sem hleypur á milljónum punda við hvern flugumann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.