Austfirskir hátíðahaldarar skoða sumarið

Forsvarsmenn Bræðslunnar stefna ótrauðir á að halda hátíðina í sumar, þótt ekki sé útséð um reglur um samkomur. Engin ákvörðun liggur enn fyrir um LungA eða Eistnaflug.

Þetta kemur fram í svörum hátíðarhaldara, en Austurfrétt hefur grennslast fyrir um áform sumarsins. Búið er að boða að gangi allt upp í baráttunni við útbreiðslu covid-19 veirunnar muni takmarkanir um samkomur rýmkaðar upp í 100 manns um mánaðarmótin maí/júní. Ólíklegt sé þó að samkomur yfir 2000 manns verði leyfðar fyrr en í haust.

Takmarkanirnar setja fjölda árvissra hátíða í uppnám. Umfangsmestu hátíðirnar á Austurlandi eru allar í júlí, LungA, Bræðslan og Eistnaflug.

Eistnaflug er fyrst í röðinni en hún á samkvæmt dagskrá að fara fram 9. – 12. júlí. „Við erum að skoða okkar mál gaumgæfilega. Það hefur engin ákvörðun verið tekin um af eða á,“ segir Arnold Cruz, framkvæmdastjóri Eistnaflugs. 

„Ef við höldum hátíðina þá verður hún án erlendra hljómsveita. Að halda alíslenska hátíð gæti orðið mjög flott. En þótt takmörkunum verði aflétt þá viljum við sem fyrr vera í góðum samskiptum við bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð og aðra. Spurningin er hvort þetta litla samfélag vilji fá fullt af gestum. Vonandi getum við gefið frá okkur nægar upplýsingar fljótlega um hvað verður gert, hvenær og ef hátíðin verður haldin,“ segir hann.

LungA hefst á síðasta degi Eistnaflugs og sendur til 19. júlí. Mikið hefur staðið til þar sem hátíðin er 20 ára í ár. Björt Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri, segir í svari til Austurfréttar að tilkynningar sé að vænta frá skipuleggjendum á næstu dögum. Að svo stöddu vilji hún ekki gefa út hvort hátíðin fari fram með breyttu sniði eða ekki þar sem endanleg útfærsla liggi ekki fyrir.

Bræðslan er síðust í röðinni, haldin laugardaginn 25. júlí. Áskell Heiðar Ásgeirsson, bræðslustjóri segir stefnt á að halda hátíðinni á sínum stað. Beðið sé þó með miðasölu og kynningu hljómsveita þar sem frekari línur sóttvarnayfirvalda liggi fyrir.

„Við erum tilbúin með dagskrá sumarsins í Bræðslunni og hún er glæsileg og við erum mjög spennt að koma henni í kynningu. Við höfum auðvitað beðið eftir því hvers konar takmarkanir yrðu á samkomuhaldi í sumar og bíðum með miðasölu þar til við höfum það svart á hvítu. Ef þetta verður línan, að það verði leyfilegt að halda samkomur fyrir allt að 2.000 manns, ættum við að vera í góðum málum, enda miðar í Bræðsluna færri en 1.000.

Við höfum hins vegar hugleitt ýmsar útgáfur af hátíðinni og munum auðvitað fylgja þeim reglum sem verða í gildi þegar komið verður fram í júlí í samráði við lögreglu og aðra. Við vonum auðvitað bara að það gangi vel að ráða niðurlögum veirunnar og að við getum skemmt okkur saman á Borgarfirði í sumar með okkar frábæru gestum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.