Austfirskir ferðaþjónustuaðilar mæta ástandinu af æðruleysi

Austurbrú stendur á miðvikudagsmorgnum fyrir samráðs- og upplýsingafundum fyrir ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu sem reyna að fóta sig í breyttum aðstæðum út af Covid-19 faraldrinum. Verkefnastjóri segir mikla óvissu á öllum ferðamörkuðum en segir stjórnendur austfirsku fyrirtækjanna mæta erfiðum aðstæðum af æðruleysi.

„Ferðaþjónustuaðilar eru að vega og meta hvað þeir gera við sumarið út frá þeim upplýsingum sem berast hverju sinni.

Við höfum reynt að aðstoða ferðaþjónustuaðila með því að fá sérfræðinga til að vera með framsögur á vikulegum fundum. Síðan höfum við opnar umræður í framhaldinu þar sem ferðaþjónustuaðilar tekið þátt í umræðunni og komið með spurningar.

Við getum ekki hist á kaffistofunni og rætt málin en við erum með fundina í fjarfundi og reynum að koma af stað góðu samtali á mannamáli innan hópsins,“ segir Jónína Brynjólfsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú.

Tjaldsvæðaleiðbeiningar á morgun

Á fyrsta fundinn komu fulltrúar frá KPMG sem kynntu sviðsmyndagreiningu sem unnin var fyrir Ferðamálastofu auk þess sem Deloitte voru með kynningu á úrræðum stjórnvalda. Á annan fundinn komu lögfræðingur frá Neytendastofu og viðskiptastjóri Expedia til að ræða afbókanir og bókanir sumarsins.

Á næsta fundi, þeim þriðja í röðinni sem verður í fyrramálið, verða fulltrúar frá Heilbrigðiseftirlitinu, almannavörnum á Austurlandi og Vatnajökulsþjóðgarði þar sem nýútkomnar leiðbeiningar fyrir tjaldsvæði, hjólhýsasvæði, skála ferðafélaga, lítil gistihús, skipulagðar ferðir og afþreyingu utandyra verða skoðuð og tekin til umræðu.

Vön að þurfa að aðlaga sig hratt

Fáar atvinnugreinar hafa orðið fyrir jafn miklum búsifjum vegna faraldursins og ferðaþjónustan. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnum er yfir helmingur þeirra einstaklinga á Austurlandi sem skráðir eru á hlutabætur úr ýmsum geirum ferðaþjónustunnar.

Jónína segir að þrátt fyrir erfiðar aðstæður reyni austfirskir ferðaþjónustuaðilar að vera beinir í baki. „Mér finnst fólk rólegt og mæta hlutunum af æðruleysi. Það eru allir af fullri einlægni að gera sitt besta en þetta er erfitt því sumir hafa lífsviðurværi sitt undir.

Okkar fyrirtæki eru dugleg að aðlaga sig breyttum aðstæðum. Styrkleikar ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni liggja í að vera sveigjanlegir og viðbúnir breytingum á verkefnum.“

Enn mikil óvissa fyrir sumarið

Faraldurinn skall á Íslandi af fullum þunga seinni hluta marsmánaðar. Tölur Hagstofunnar benda til þess að samdráttur eystra hafi verði minni þá en víða annars staðar á landinu, meðal annars því ferðaþjónustan er enn afar árstíðabundin á svæðinu.

„Mörg fyrirtæki með heilsársrekstur fundu fyrir högginu strax en mörg voru ekki komin af stað sökum þess að hér er enn talsvert um árstíðarsveiflur. Það sem flækist fyrir er að afbókanir berast frá mánuði til mánaðar. Í mars var mikið afbókað fyrir apríl og maí, í apríl fyrir júní en enn eru mörg fyrirtæki með góða bókunarstöðu í ágúst og jafnvel júlí.

Það ríkir mikil óvissa. Koma einhverjir erlendir ferðamenn og þá hvenær? Hvernig bregst íslenski markaðurinn við? Þess vegna erum við með þessa fundi til að halda samtalinu gangandi en líka svo við hjá Austurbrú getum verið meðvituð um hvað er að gerast og hvernig við getum unnið með okkar fyrirtækjum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.