Austfirski landinn fer vel í landann

„Það er rétt að við erum byrjuð að brugga þriðju lögun af landanum og það töluvert fyrr en við áttum von á,“ segir Anna Margrét Jakobsdóttir, framkvæmdarstýra hjá Blábjörgum á Borgarfirði eystra.

Ekki ýkja langt síðan landabrugg og ekki síður landasala var litin hornauga af yfirvöldum enda um kolólöglegan gjörning að ræða. Bruggverksmiðjan KHB, sem er hluti af fyrirtækinu Blábjörg, hefur aldeilis breytt því. Frá áramótum hefur KHB framleitt og selt landa undir heitinu Landi og sala í vínbúðum töluvert umfram áætlanir.

„Landinn okkar fór fyrst inn í Vínbúðir í byrjun ársins og eðli máls samkvæmt þegar fólk er með nýja og óþekkta vöru vissum við ekkert á hverju mætti eiga von á sölulega. En Landanum hefur verið vel tekið og við afskaplega sátt við viðtökurnar það sem af er.“

Landi ekki það eina sem þetta litla brugghús framleiðir og selur. Gin frá fyrirtækinu kom í verslanir í vor sem leið og góð hreyfing er á því líka samkvæmt upplýsingum frá starfsfólki Vínbúða.

„Það eina frá okkur sem enn er ekki til sölu í Vínbúðunum er svo bjórinn okkar,“ segir Anna. „En hann hefur til dæmis verið til sölu í Valaskjálf og sala þar fer stigmagnandi. Ótrúlega fínn uppgangur í þessu og við hér þakklát.“

Mynd: Instagram KHB

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.