Orkumálinn 2024

Austfirsk veiðifélög mótmæla eldisáformum við Raufarhöfn

Sjö austfirsk náttúruverndarsamtök og veiðifélög eru meðal þeirra sem mótmæla áformum um fiskeldi við Raufarhöfn. Varað er við áhrifum eldisins á laxveiðiár á Norðausturhorni landsins.

Á Raufarhöfn eru til skoðunar áform um 10.000 tonna eldi, sem yrði í sjó hluta úr ári. Raufarhöfn er innan friðunarsvæðis fyrir sjókvíaeldi, sem markað var árið 2004.

Í ályktun sem um 30 náttúruverndar- og veiðifélög sendu frá sér í dag er varað við að fjöldi laxveiðiáa, þar á meðal Selá, Vesturdalsá, Hofsá og Sunnudalsá í Vopnafirði og Jökulsá á Dal, séu í innan við 150 km fjarlægð frá eldinu og það geti haft áhrif á villtu stofnana þar. „Sjókvíaeldi á Raufarhöfn myndi gengisfella allar laxveiðiár á norðurlandi, Norðausturlandi og Austurlandi.“

Skaði geti ekki aðeins orðið á lífríkinu heldur afkomu tæplega 1.800 lögbýla á Norður- og Austurlandi sem fái tekjur af lax- og silungsveiðum. Því er skorað á sveitarstjórn Norðurþings að beita sér ekki fyrir breytingum á friðunarsvæðinu og matvælaráðherra að lögfesta hvar bannað sé að stunda sjókvíaeldi.

Forsvarsfólk veiðifélaga fyrrnefndra veiðiáa eru meðal þeirra sem skrifa undir yfirlýsinguna, ásamt formönnum VÁ – Félags um verndun Seyðisfjarðar og Náttúruverndarsamtaka Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.