Orkumálinn 2024

Austfirðingar sterkari saman?

Frambjóðendur í Fjarðabyggð virðast almennt ekki andsnúnir því að Austurland verði sameinað í eitt sveitarfélag þótt líklegra sé að þau verði fyrst tvö. Kjósendur á Eskifirði sýndu talsverðan áhuga á menntamálum á framboðsfundi síðasta föstudag.

„Ég er ekki fylgjandi því að Austurland sé eitt sveitarfélag en ég held að það geti orðið tvö mjög fljótlega. Það tók um þrjá mánuði að sameina Breiðdalvík og Fjarðabyggð en Seyðisfjörður og Fljótsdalshérað hafa verið að tala saman lengi.

Þegar samgöngin verða komin má huga að því að sameina allt Austurland,“ var svar Jens Garðars Helgasonar við spurningu úr sal á fundinum um hvort framboðin væru fylgjandi því að sameina allt Austurland í eitt.

Svar Jens var hvað afdráttarlausast gagnvart því að ekki væri enn kominn tími á að sameina Austurland allt. Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokksins, benti á að Fjarðabyggð hefði staðið í sameiningum í rúm 20 ár sem væri dæmi um að sveitarstjórnarmenn þar brygðust við ákalli um sameiningar. Rétt væri að bíða meðan önnur sveitarfélög töluðu saman en talsmenn Fjarðabyggðar væru alltaf til í að ræða framtíðina.

Rúnar Gunnarsson, oddviti Miðflokksins, sagði listann ekki hafa neina sérstaka skoðun á sameiningu en væri jákvæður fyrir öllu. Eydís Ásbjörnsdóttir af Fjarðalistanum sagði rétt að skoða kosti og galla stórrar sameiningar. „Það er á okkar ábyrgð að skoða það. Það búa bara 3% Íslendinga á Austurlandi og við erum sterkari saman.“

Frambjóðendur voru einnig nokkuð spurðir út í stefnu í fræðslumálum á fundinum og kölluðu fundargestir eftir heildstæðri sýn í skólamálum, auknum stuðningi við sérkennslu og minni sumarlokunum leikskóla en síðastnefnda atriðið

Tuskast í menntamálum

Einar Már Sigurðsson af Fjarðalistanum sagði í framsöguræðu sinni ekki hafa orðið var við álíka áhuga á menntamálum í sveitastjórnarkosningum frá því grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna um miðjan tíunda áratuginn. Hann hættir sem skólastjóri í Nesskóla í sumar og kvaðst vonast til að geta þá beitt sér í fræðslumálunum innan stjórnmálanna, nokkuð sem hefði verið erfitt meðan hann var í starfi.

Frambjóðendur lýstu sig almennt sammála því að ekki væri veitt nægum fjármunum í stuðning við börn með sérþarfir og að skoða þyrfti málefni skólanna heildstætt. Það væri þó ekki bara skólanna eða stjórnmálanna heldur foreldra og annarra hagsmunaaðila.

Alma Sigbjörnsdóttir, Miðflokknum, sagði vandamál að öllu væri velt yfir á skólana. Hún hét úrbótum þar á. „Ég hef trú á að þessu verði kippt í liðinn þegar ég verð búin að tuska þá til!“

Fréttamönnum meinað að spyrja

Reyndar komu ekki fram allar þær spurningar sem möguleiki var á því við upphaf fyrirspurnatíma tilkynnti fundarstjóri að fréttamönnum væri óheimilt að spyrja, það væri einungis ætlað íbúum og fjölmiðlar hefðu aðrar leiðir til að spyrja frambjóðendur.

Ekki var fleiri fjölmiðlum til að dreifa á fundinum en Austurfrétt, frekar en á öðrum framboðsfundanna, en líkt og fyrir fjórum árum hefur Austurfrétt lagt sig fram um að vera til staðar á sem flestum opnum framboðsfundum.

Strax eftir fundinn gerði Austurfrétt alvarlega athugasemd við ákvörðun fundarstjóra á þeim forsendum að með henni væri lagður steinn í götu frjálsra og óheftra fjölmiðla, sem væru einn af hornsteinum lýðræðisins og fulltrúi almenning. Til að sinna því hlutverki væri mikilvægt að geta spurt frambjóðendur í heyranda hljóði og til þess þess væru ekki önnur tækifæri en framboðsfundirnir. Austurfrétt hefur síðar borist afsökun á ákvörðun fundarstjóra.

27 eða 7,5 prósent?

Á fundinum á Reyðarfirði kvöldið áður nýtti Austurfrétt tækifærið til að spyrja Rúnar Gunnarsson út í fullyrðingar hans um 27% launahækkun hjá sveitarfélaginu milli áranna 2016 og 2017 sem hann sagði alfarið vegna fjölgunar starfsmanna.

Spurt var sérstaklega út í hve mikinn hluta einskiptisgreiðsla vegna uppgjörs við lífeyrissjóðinn Brú og breytt reikningsskil með tilkomu hjúkrunarheimilanna á Eskifiðri og Fáskrúðsfirði í samstæðureikning sveitarfélagsins árið 2018 skýrðu af hækkuninni. Austurfrétt/Austurglugginn hafa greint frá breyttum reikningsskilum og niðurstöðu ársreikningsins í vor.

Rúnar vitnaði þar til greinargerðar bæjarstjóra með ársreikningi þar sem fjallað er um heildarlaunagreiðslur þar sem segir að heildarhækkun launa sé 27% en svaraði engu um forsendur spurningarinnar. Efnisgreinin sem hann vitnar til hljóðar hins vegar svo:

„Áhrif vegna hjúkrunarheimila og lífeyrismála, eins og áður hefur komið fram, hafa mikil áhrif á samanburð fjármála sveitarfélagsins á milli ára. Rekstrarkostnaður sveitarfélagsins hækkar þannig í samanburði við árið 2016 um 592 millj. kr. eða sem nemur 11,5%. Launakostnaður sveitarfélagsins nam 3.564 millj. kr. sem er um 760 millj. kr. hækkun frá árinu 2016 eða 27,1%. Án áhrifa hjúkrunarheimila og framlags vegna uppgjörs A deildar Brúar lífeyrissjóðs, hækkar launakostnaður milli ára um 7,5% eða um 210 millj. kr.“

Ásakanir um keypta fréttamennsku

Í framsöguræðu sinni á á Eskifirði í byrjaði Rúnar á að beina orðum sínum til fréttamanns Austurfréttar. Rúnar sagði skrif hans „ekki í miklu uppáhaldi“ hjá sér og sagði þau líkjast því að „Jens Garðar hefði keypt þau um leið og hann keypti Egilsbúð.“ Þar vísaði hann til umdeildar auglýsingar Sjálfstæðisflokksins utan á félagsheimilinu í Neskaupstað.

Rúnar ítrekaði sína fullyrðingu sína um 27% launahækkunina en kvaðst að öðru leyti „sleppa úr“ forsendum hennar þar sem „þeir væru svo veikir fyrir þessum lið.“

Rétt er að taka fram að í lok fyrirspurnatímans í gær krafðist fréttamaður Austurfréttar að fá orðið til að bera af sér sakir í ljósi þess að einn frambjóðenda hefði í framsöguræðu nafngreint hann sérstaklega og haft uppi alvarlegar ásakanir um fagmennsku hans. Við því var orðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.