Austfirðingar senda Vestfirðingum kveðjur

Bæði bæjarstjórn Seyðisfjarðarkaupstaðar og bæjarráð Fjarðabyggðar hafa sent Vestfirðingum hlýjar kveðjur í kjölfar snjóflóðanna í síðustu viku. Um leið er minnt á nauðsyn þess að halda áfram byggingu varnarmannvirkja gegn ofanflóðum um allt land.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar kom saman til reglubundins fundar daginn eftir að flóðin féllu við Flateyri og Suðureyri í síðustu viku. Í upphafi fundar var kveðjum vestur bætt við dagskrá fundar.

Þar sendir bæjarstjórnin hlýjar kveðjur til íbúa Vestfjarðar við þær aðstæður sem uppi voru vegna óveðurs og hamfara. „Hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum,“ segir í bókuninni.

Bæjarráð Fjarðabyggðar sendi hlýjar kveðjur til íbúa Flateyrar, Suðureyrar og Vestfirðinga allra á fundi sínum á mánudag. Þar segir að mikil mildi sé að manntjón hafi ekki orðið þótt eignatjón sé mikið.

Í bókuninni er komið inn á að ánægjulegt sé að ofanflóðavarnir hafi staðist áraunina og skipt sköpum til að verja byggðina á Flateyri. Þar hafi komið í ljós hversu ómetanlegar þær framkvæmdir séu fyrir samfélög sem búi við náttúruvá eins og ofanflóð.

Í kjölfar flóðanna hefur sprottið upp mikil umræða um stöðu Ofanflóðasjóðs, sem talinn er hafa um 20 milljarða í handbært fé, og hví framkvæmdir við ofanflóðavarnir gangi ekki hraðar en raun ber vitni.

Bæjaryfirvöld í Fjarðabyggð hafa um árabil bent á þetta og hnykkt er á því í bókunni að farið verði að lögum um ofanflóðavarnir og framkvæmdum haldið áfram.

„Núgildandi lög kveða á um að vörnum sé lokið á þessu ári en langt í frá er að því verði lokið. Það er algerlega ólíðandi að fjármagn það sem aflað hefur verið í Ofanflóðsjóð frá upphafi hans hafi ekki verið nýtt til uppbyggingar ofanflóðamannvirkja og við verður ekki unað lengur. Því áréttar bæjarráð Fjarðabyggðar enn einu sinni við stjórnvöld að nú verður að setja kraft í uppbyggingu mannvirkja og áætlun um slíkt þarf að koma fram strax.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.