Austfirðingar brýndir til dáða með smitvarnavísu

Ekkert nýtt smit Covid-19 smit hefur greinst á Austurlandi frá 9. apríl. Aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands minnir íbúa þó sem fyrr á smitvarnir.

Aðgerðastjórnin hefur frá því að faraldurinn komst á skrið í fjórðungnum sent frá sér reglulegar tilkynningar um stöðuna í baráttunni við faraldurinn og áminningar til íbúa um sóttvarnir.

Ekkert nýtt smit hefur nú greinst í rúmar sex vikur. Ekki er vitað um neitt virkt smit en samkvæmt tölum frá Covid.is eru 26 í sóttkví.

Þótt faraldurinn hafi rénað verulega og allra síðustu vikur verið slakað á reglum um smitvarnir á landsvísu heldur aðgerðastjórnin áfram að hvetja Austfirðinga til dáða og minna á að hver og einn beri ábyrgð á sínum eigin smitvörnum.

Að þessu sinni gerir hún það með vísu eftir Stefán Bragason, hagyrðing og bæjarritara Fljótsdalshéraðs.

Í handarkrikann hósta skalt,
hreinar lúkur spritt´ ávallt.
Fólki í burtu frá þér halt
og farðu í rúmið, sé þér kalt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.