Auknar álögur skaða austfirska ferðaþjónustu

skuli_bjorn_gunnarsson.jpg
Forsvarsmenn Ferðamálasamtaka Austurlands hafa áhyggjur af því að aukin gjöld á ferðalög innanlands hafi neikvæð áhrif á austfirska ferðaþjónustu. Gjöldin tengjast bæði flugi og eldsneyti einkabifreiða.
Gert er ráð fyrir hækkun á lendingar-, farþega- og leiðsögugjöldum á Reykjavíkurflugvelli á þessu ári og frekari hækkanir hafa verið boðaðar á því næsta. Við bætist hið samevrópska útblástursgjald.

„Stjórn Ferðamálasamtaka Austurlands hefur áhyggjur af því að ferðakostnaður sé farinn að rýra markaðsstöðu ferðaþjónustufyrirtækja á Austurlandi. Stjórnvöld hafa vald til að stýra hluta af þessum kostnaði og milda áhrif þess að eldneytisverð í heiminum hækkar stöðugt,“ segir í ályktun stjórnar samtakanna.

„Stjórn Ferðamálasamtaka Austurlands hvetur stjórnvöld til þess að taka tillit til hagsmuna ferðaþjónustunnar við ákvarðanir sínar sem varða boðaðar hækkanir á opinberum gjöldum á flugsamgöngur og hugmyndir um að lækka álögur ríkisins á eldsneyti. Það liggur fyrir að nú þegar hafa eldsneytisverð og há flugfargjöld umtalsverð áhrif á ferðahegðun innlendra og erlendra ferðamanna. 

Frekari hækkanir á kostnaði fólks við að ferðast um landið munu hafa í för með sér efnahagslegan samdrátt fyrir atvinnugreinina og draga úr þeim vexti sem verið hefur síðustu ár. Slíkt gengur þvert á áætlanir stjórnvalda og yfirlýsingar um að efla ferðaþjónustu allt árið – um allt Ísland.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.