Aukinn flúorstyrkur í grasi umhverfis Fjarðaál: Getur haft áhrif á grasbíta

alver_eldur_0004_web.jpg
Reglubundnar mælingar við álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði sýna aukinn styrk flúors í grasi í firðinum. Gildin eru hærri en viðmiðunarmörk grasbíta. Ekki er talið að fólki stafi hætta af.

„Að mati Umhverfisstofnunar er ekki um að ræða hættu fyrir fólk en full ástæða til að bregðast við, kanna hvort áhrifa gæti í búfé í firðinum og hver styrkur flúors sé í heyi áður en teknar verði ákvarðanir um frekari aðgerðir,“ segir í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.

Niðurstöðurnar voru afhentar yfirmönnum álversins á mánudag sem gerðu stofnuninni viðvart. Stofnunin hefur farið fram á nánari úttekt á orsökum og afleiðingum hækkunarinnar. 

Þær aðgerðir eru hafnar hjá fyrirtækinu. Í yfirlýsingu Fjarðaáls í dag segir að nokkrir samverkandi þættir skýri hækkunina, meðal annars bilun í tæknibúnaði sem búið sé að gera við. Nýjar mælingar staðfesti að meðaltalsgildi flúors frá álverinu sé komið í eðlilegt horf.

„Flúor er einn helsti mengunarvaldur frá álverum. Flúorinn hleðst upp í gróðri, að hluta til gengur hann inn í vefi og að hluta situr hann utan á gróðrinum. Áhrifa af flúor gætir alla jafna vegna uppsöfnunar fremur en hárra einstakra gilda og því eru ákvæði um styrk flúors í gróðri miðuð við meðalgildi á sex mánaða tímabili. 

Grasbítar eru viðkvæmari fyrir flúormengun og þekkt eru skaðleg áhrif flúormengunar á tennur í sauðfé og hestum (gaddur), t.d. í kjölfar eldgosa,“ segir í tilkynningu Umhverfisstofnunar.

„Hvað varðar áhrif flúors á fólk er vel þekkt að flúor í hóflegum skömmtum bætir tannheilsu og það er þess vegna að finna í mörgum tegundum af tannkremi. Flúor er auk þess í margvíslegri fæðu, einkum sjávarfangi og ostum og í einhverjum tilfellum er flúor bætt í drykkjarvatn. Ofneysla hefur hins vegar skaðleg áhrif þar sem það dregur úr styrk beina og veldur skemmdum á tönnum.
 
Ekki er talið að hætta sé fyrir fólk vegna uppsöfnunar flúors í Reyðarfirði.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.