Auglýst eftir lögreglustjóra á Austurlandi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 20. jún 2025 09:50 • Uppfært 20. jún 2025 09:55
Dómsmálaráðuneytið hefur loks auglýst eftir nýjum lögreglustjóra fyrir Austurland, rúmum tveimur mánuðum eftir að staðan losnaði. Dómsmálaráðherra heitir því að efla lögregluna í landinu.
Staðan losnaði 1. apríl síðastliðinn þegar Margrét María Sigurðardóttir var skipuð í embætti framkvæmdastjóra nýrrar Mannréttindastofu. Í svari Þorbjargar Sigríðar Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra, við fyrirspurn Jens Garðars Helgasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í fyrirspurnatíma Alþingis fyrir viku, kom fram að Margrét María hefði þegið tilfærslu milli embætta en hún tók við starfinu eystra 1. apríl árið 2020.
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Austurlandi, hefur gegnt skyldum lögreglustjóra á Austurlandi síðan. Annar lögreglustjóri, Úlfar Lúðvíksson, þáði hins vegar ekki tilfærslu í starfi en honum var boðið að færa sig austur snemma í maí.
Jens Garðar spurði Þorbjörgu Sigríði hvað hefði tafið auglýsingu eftir nýjum lögreglustjóra. Þorbjörg Sigríður sagðist ekki líta á tímann sem sérlega langan enda hefði settur lögreglustjóri verið í embættinu. Hins vegar væri mikilvægt að vanda til verka.
Hún talaði einnig um eflingu lögreglunnar þar sem lögreglustjóraembættin hefðu á fyrri helmingi þessa árs fengið heimild til að fjölga lögreglumönnum um 50 á landinu öllu. Eins hefði verið tryggt fjármagn til að halda sérstakt nýliðanámskeið fyrir sérsveitina. Hún sagðist finna aukinn áhuga á löggæslustörfum því aldrei hefðu fleiri sótt um í lögreglunám.
Auglýsingin birtist síðan á mánudag, tveimur og hálfum mánuði eftir skipan Margrétar Maríu í annað embætti. Ekki er gerð krafa um sérstaka menntun, heldur þekkingu eða reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar, stjórnun, rekstri og færni í forustu og samskiptum. Þá er góð þekking og yfirsýn yfir verkefni lögreglunnar sögð æskileg. Umsóknarfrestur er til loka júní. Skipað er í stöðuna til fimm ára.