„Augljóst vanmat að ræða“

Skipulagsstofnun skilaði nýlega af sér áliti um mat á umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðs fiskeldis í sjókvíum á Stöðvarfirði.

Í álitinu leggst Skipulagsstofnun alfarið gegn því að í fiskeldinu verði alinn frjór lax, en Fiskeldi Austfjarða hf. telur hættuna á eldi á frjóum laxi vera óverulega.


Fiskeldi Austfjarða hf. hefur áform um að hefja framleiðslu á 7.000 löxum árlega með sjókvíaeldi á Stöðvarfirði. Stefnt er að fyrstu útsetningu seiða í sumar en fyrirhugað er að setja út 2,5 milljónir seiða annað hvert ár.


Eldiskvíarnar munu vera 50 metrar í þvermál og 160 metrar að ummáli. Þær verða í þyrpingu sem samanstendur að 12 kvíum. Hver eldisnót verður 20 metra djúp og rými hverrar nótar u.þ.b. 30.000 rúmmetrar.

 

Leggjast alfarið gegn eldi á frjóum laxi
Fiskeldi Austfjarða hafði hug á því að ala frjóan lax í eldinu og taldi að það myndi hafa óveruleg og afturkræf áhrif á erfðablöndun. „Rökstyður fyrirtækið niðurstöðu sína með vísan í fyrirbyggjandi aðgerðir gegn slysasleppingu, staðsetningu eldissvæðisins og litla hæfni eldislaxa til að fjölga sér og búa til harðgerð afkvæmi. Ennfremur er talin lítil hætta á að lax sem sleppur í Stöðvarfirði leiti í ár annars staðar á Austfjörðum eða í ár í öðrum landshlutum,“ segir í niðurstöðu Fiskeldis Austfjarða um hættuna á erfðablöndun af frjóum eldislaxi.


Samkvæmt núgildandi áhættumati er óheimilt að ala frjóan eldislax í Stöðvarfirði vegna hættu á erfðablöndun í Breiðdalsá en áhættumatið var gert í maí árið 2020. Þá segir Skipulagsstofnun niðurstöðu Fiskeldis Austfjarða um áhrif eldis á frjóum laxi á erfðablöndun „óforsvaranlega.“


„Að mati Skipulagsstofnunar er um augljóst vanmat að ræða, enda liggur fyrir áhættumat frá Hafrannsóknastofnun, helstu rannsókna- og ráðgjafarstofnunar landsins á sviði nýtingar auðlinda hafsins, sem bannar eldi á frjóum laxi í Stöðvarfirði vegna hættu á erfðablöndun [...] Framkvæmdaraðili lýsir heldur ekki mögulegum áhrifum eldis á frjóum laxi á Breiðdalsá og Stöðvará, eða aðrar ár með lax sem áhættumat erfðablöndunar nær ekki til. Það verður að teljast ámælisvert í ljósi þess að ár með litla laxastofna eru almennt taldar viðkvæmari fyrir erfðablöndun en ár með stærri stofna auk þess sem eldið er staðsett nálægt Stöðvará [...] Þá telur Skipulagsstofnun niðurstöðu framkvæmdaraðila um að lítil hætta sé á að lax sem sleppur í Stöðvarfirði leiti í ár annars staðar á Austfjörðum eða í ár í öðrum landshlutum órökstudda,“ segir í niðurstöðu Skipulagsstofnunar og jafnframt tekið fram að það sé staðreynd að „eldið er staðsett innan þeirra 5 km fjarlægðamarka sem í dag er gerð krafa um til að vernda ár með villta stofna laxfiska.“

 

Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar kemur skýrt fram að sjókvíaeldi á Stöðvarfirði skuli ekki fá leyfi fyrir eldi á frjóum laxi að óbreyttu áhættumati í firðinum. Fiskeldi Austfjarðar áformar því að ala ófrjóan lax á meðan svo er.

 

Getur haft neikvæð áhrif á ferðamennsku
Skipulagsstofnun segir einnig að sjókvíeldin í Stöðvarfirði geti haft áhrif á upplifun ferðamanna, þar sem yfirbragð og ásýnd fjarða breytist sem og ímynd þeirra um lítt eða ósnortna náttúru verður ekki eins sterk.

 

„Fiskeldið getur því haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. Eldissvæðin verða missýnileg innan Stöðvarfjarðar. Þegar horft er frá strönd ber eldismannvirkin við hafflötinn og frá því sjónarhorni munu þau líklega vera minna áberandi, nema þar sem eldiskvíar eru skammt undan landi. Hins vegar er ljóst að eldismannvirki verða áberandi þar sem horft er yfir hafflötinn ofar úr landi næst eldissvæðum. Eldissvæðið liggur í nágrenni við þjóðveg 1, þéttbýli, gönguleiðir og ferðamannastaði. Það má því gera ráð fyrir að fjöldi fólks verði fyrir áhrifum. Sjónræn áhrif eru metin talsvert neikvæð en að fullu afturkræf ef eldi verður hætt,“ segir í áliti Skipulagsstofnunar um sjónræn áhrif eldisins.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.