Atvinnu- og samgöngumál skipta kjósendur mestu máli

Samgöngumál eru það málefni sem skipta kjósendur mestu máli við val á framboðslista fyrir fyrstu sveitarstjórnarkosningarnar í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Menningarmál virðist minnst áhrif hafa.

Þetta kemur fram í könnun sem Austurfrétt/Austurglugginn gerðu í lok ágúst.

63% svarenda sögðu samgöngumál skipta mjög miklu máli við val á lista og 56,7% atvinnumál. Þar á eftir komu skóla- og fræðslumál og síðan fólkið á framboðslistunum sem rúm 50% sögðu skipta mjög miklu máli.

Almennt voru mjög fá málefni sem skiptu fólk mjög litlu máli. Þegar rýnt er nánar í svörin kemur í ljós að margir þátttakendur segja málefni eins og félagsþjónustu eða skipulagsmál skipta miklu máli. Utan þeirra 12 þátta sem hægt var að velja í könnuninni var helst minnst á heilbrigðisþjónustu í opinni spurningu.

Helst voru það menningarmál og umhverfismál sem virtust ekki skipta kjósendur máli. Síst voru það menningarmálin, 21,3% sögðu þau skipta mjög miklu máli en 15,4% töldu þau litlu eða mjög litlu máli skipta. 36,3% sögðu umhverfismálin skipta mjög miklu máli en 10% að þau skiptu litlu eða engu máli.

Ólík forgangsröðun milli flokka

Talsverður munur er milli kjósenda eftir flokkum á þeim hvaða málefni þeir telja skipta máli. Um 70% kjósenda Sjálfstæðisflokks og Miðflokks segja atvinnu- og samgöngumál skipta þá mestu máli en tæp 40% kjósenda Vinstri grænna.

Dæmið snýst við þegar horft er á umhverfismálin sem 59% kjósenda Vinstri grænna telja skipta mjög miklu máli og eru næst á eftir skólamálum hjá þeim hópi. Á móti telja 19% kjósenda Sjálfstæðisflokksins umhverfismálin skipta mjög miklu máli. Munurinn milli flokkanna sést einnig í mati á mikilvægi menningarmála sem 44% kjósenda Vinstri grænna telja skipta mjög miklu máli en aðeins 8% kjósenda Sjálfstæðisflokks. Þá eru flokkarnir enn einu sinni sitt hvoru megin á mælistikunni þegar spurt er um mikilvægi oddvita, hann skiptir kjósendur Sjálfstæðisflokks mestu en Vinstri græna minnstu.

Hjá Framsóknarfólki eru það samgöngumál og áhrif til að þrýsta á ríkið sem skiptir máli en menningarmálin síst. Kjósendur Austurlistans telja samgöngumál og frambjóðendur skipta mestu mál en félagsþjónustu síst.

Kjósendur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs skera sig nokkuð úr þar sem þeir setja umhverfis-, skóla- og félagsmál í öndvegi en telja íþróttamál skipta minnsti máli. Óákveðnir segja atvinnu- og samgöngumál skipta mestu máli en menningarmálin síst. Kjósendur Miðflokksins leggja minnstu áhersluna á menningarmál.

Munur milli kynja

Þegar niðurstöðurnar eru greindar eftir aldursflokkum reyndast atvinnu- og samgöngumál mikilvægust, síst virðast samgöngumál þó skipta aldurshópinn 25-34 ára máli. Málaflokkar eins og frambjóðendur, umhverfismál, oddviti og félagsmál virðast skipta eldra fólk meira máli en það yngra.

Nokkur munur er á afstöðu kynjanna til málaflokka. Sem fyrr skipta atvinnu- og samgöngumál mestu máli. Skóla- og félagsmál skipta konur töluvert meira máli heldur en karla sem horfa meira eftir getunni til að hafa áhrif á ríkið.

Að endingu má nefna að munur er á mikilvægi málaflokka eftir búsetu. Samgöngu- og atvinnumál skipta alla mestu, en þó enga meir en Seyðfirðinga þar sem 75% svarenda segja samgöngumál skipta mjög miklu máli.

Skólamál skipta Héraðsbúa og Borgfirðinga frekar máli en aðra, , skipulagsmál hafa mest áhrif á Héraðsbúa en minnst á Borgfirðinga, áhrifin skipta Djúpavogsbúa mestu en Borgfirðinga minnstu. Loks eru Seyðfirðingar og Borgfirðingar sitt hvoru megin á mælistikunni þegar spurt er um hve miklu frambjóðendur eða oddvitinn skipti máli, Seyðfirðinga mestu máli en Borgfirðinga minnstu.

Fyrirvarar og aðferðafræði

Könnunin var netkönnun opin dagana 25. – 31. ágúst. Hún var kynnt í gegnum Austurfrétt/Austurgluggann. Alls bárust 319 svör sem jafngildir því að 9% þeirra sem voru á kjörskrá í sameiningarkosningunum fyrir ári hafi svarað.

Með þeirri aðferð sem notuð var er ekki hægt að tryggja jafnt úrtak eftir aldri, kyni, búsetu eða öðru. Þannig má setja þann fyrirvara við niðurstöðurnar að karlmenn voru rúm 58% svarenda könnunarinnar en konur tæp 41%. Tæpt 1% skilgreindi sig undir öðru kyni. Hlutfall kynjanna á kjörskrá er nánast jafnt, karlar eru þó heldur fleiri.

Þannig nær könnunin heldur ekki að endurspegla aldurssamsetningu kjósendahópsins. Aldurshópurinn 65 ára og eldri er stærstur á kjörskrá, um 22% en ekki nema 12,5% svarenda. Sömuleiðis eru færri svör frá hópnum 25-34 ára miðað við hlutdeild í kjörskrá. Á móti eru fleiri svör frá 35-44, 45-54 og 55-64 ára en kjörskráin gefur til kynna.

Í þriðja lagi voru hlutfallslega fleiri Seyðfirðingar og Borgfirðingar en færri Héraðsbúar sem svöruðu könnuninni miðað við kjósendahópinn.

Austurfrétt/Austurglugginn í samvinnu við sveitarfélagið Fljótsdalshérað standa fyrir framboðsfundi klukkan 20:00 í kvöld með fulltrúum allra flokka. Fundurinn verður sendur út beint á Facebook-síðu Austurfréttar. Hægt er að senda inn spurningar til frambjóðenda fyrir fundinn á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.. Einnig verður hægt að senda inn spurningar á meðan fundi stendur í gegnum sérstakt forrit.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.