
Atvikið raskar ekki áætlun Norlandair
Flugáætlun Norlandair stendur óhögguð þrátt fyrir að ein véla félagsins sé til rannsóknar eftir að hafa misst afl á öðrum hreyfli á leið sinni frá Vopnafirði og Þórshöfn til Akureyrar í gær.Vélin fór frá Akureyri í gær til Vopnafjarðar og síðan Þórshafnar og var á leið til baka þegar hún missti aflið. Hún lenti heilu og höldnu á Akureyrarflugvelli kortér yfir tólf.
Í svari Steindórs Kristinsson Jónssonar, flugrekstrarstjóra Norlandair, við fyrirspurn Austurfréttar, segir að de-Havilland DHC-6 Twin Otter vélin sé hönnuð til að geta flogið á öðrum hreyfli og að áhöfnin sé þjálfuð til slíkrar lendingar.
Alls voru sjö manns um borð. Öryggisfulltrúi Norlandair tók á móti farþegum og var þeim boðin áfallahjálp.
Rannsóknanefnd flugslysa rannsakar atvikið og hefur vélina til skoðunar. Norlandair rekur þrjár Twin Otter vélar og hefur atvikið ekki áhrif á flugáætlanir félagsins, að sögn Steindórs. Áætlunarvélin hóf sig á loft á áætlun frá Akureyri á tíunda tímanum í morgun og lenti aftur á eðlilegum tíma, rúmlega 11:20.
Mynd: N4/Hjalti Stefánsson