Atvikið raskar ekki áætlun Norlandair

Flugáætlun Norlandair stendur óhögguð þrátt fyrir að ein véla félagsins sé til rannsóknar eftir að hafa misst afl á öðrum hreyfli á leið sinni frá Vopnafirði og Þórshöfn til Akureyrar í gær.

Vélin fór frá Akureyri í gær til Vopnafjarðar og síðan Þórshafnar og var á leið til baka þegar hún missti aflið. Hún lenti heilu og höldnu á Akureyrarflugvelli kortér yfir tólf.

Í svari Steindórs Kristinsson Jónssonar, flugrekstrarstjóra Norlandair, við fyrirspurn Austurfréttar, segir að de-Havilland DHC-6 Twin Otter vélin sé hönnuð til að geta flogið á öðrum hreyfli og að áhöfnin sé þjálfuð til slíkrar lendingar.

Alls voru sjö manns um borð. Öryggisfulltrúi Norlandair tók á móti farþegum og var þeim boðin áfallahjálp.

Rannsóknanefnd flugslysa rannsakar atvikið og hefur vélina til skoðunar. Norlandair rekur þrjár Twin Otter vélar og hefur atvikið ekki áhrif á flugáætlanir félagsins, að sögn Steindórs. Áætlunarvélin hóf sig á loft á áætlun frá Akureyri á tíunda tímanum í morgun og lenti aftur á eðlilegum tíma, rúmlega 11:20.

Mynd: N4/Hjalti Stefánsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.