Athugasemdir um óþef ekki næg ástæða til að hafna útgáfu starfsleyfis til moltugerðar

Heilbrigðiseftirlit Austurlands (HAUST) hefur gefið út nýtt starfsleyfi til moltugerðar á vegum Íslenska gámafélagsins á Reyðarfirði. Sveitarfélagið Fjarðabyggð krefst þess að HAUST fylgist nánar með starfsemi á svæðinu.

Heilbrigðisnefnd staðfesti leyfið á fundi sínum í gær en eftirlitið gaf það út í síðustu viku með fyrirvara um samþykkið. Eldra leyfi var numið úr gildi í lok mars eftir úrskurð Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála um að frestur til andmæla hefði ekki verið nógu langur.

Bæði íbúar á Reyðarfirði og sveitarfélagið Fjarðabyggð sendu inn umsagnir vegna starfsleyfisins. Í umsögn sveitarfélagsins er að finna harða gagnrýni á starfsemina sem hófst í byrjun árs 2018. Þar segir að ekki hafi verið farið eftir eldra starfsleyfi og það þurfi að laga.

Í umsögn Fjarðabyggðar er því haldið fram að umgengni og frágangur á svæðinu hafi ekki verið í samræmi við starfsleyfi, þess krafist að nánar verði fylgst með starfseminni og gripið til úrræða bæti Íslenska gámafélagið ekki ráð sitt.

Vilja ekki úrgang hvaðan sem er

Sveitarfélagið vill að fyrirtækið taki aðeins við lífrænum úrgangi frá fyrirtækjum og heimilum í Fjarðabyggð, á Fljótsdalshéraði og Seyðisfirði, líkt og samningur þeirra kveði á um. Vísað er í skýrslu verkefnastjóra umhverfismála Fjarðabyggðar um að brögð séu að því að sorpið komi víðar að. HAUST telur hins vegar ekki ástæðu til að afmarka móttökuna við tiltekin sveitarfélög.

Bæði sveitarfélagið og íbúar gera athugasemdir við að gámafélagið hafi tekið á móti meira rusli en því er heimilt, 600 tonnum. HAUST vísar til upplýsinga frá fyrirtækinu og sveitarfélögunum að magnið eigi að haldast innan þessara marka. Með því verði fylgst.

Kröfur um snyrtilega umgengni

Þau gera jafnframt athugasemdir við umgengni fyrirtækisins á athafnasvæðinu og að meindýravarnir hafi ekki verið nógu öflugar. Vísað er í skýrslu umhverfisstjórans um að mikið rusl hafi verið á svæðinu. Í svari HAUST er skýrt frá hvernig snyrtilegri umgengni sé viðhaldið, en sé henni ábótavant geri eftirlitið kröfur um úrbætur.

Eins er bent á að meindýraeyðir komi reglulega á svæðið. Samkvæmt skýrslum hans virðist músum þar ekki hafa fjölgað eftir að jarðgerðin hófst. Auk þess hafi verið settur upp búnaður til að halda fuglum frá.

Lyktarmengun einu sinni staðfest

Í umsögn Fjarðabyggðar segir að ítrekað hafi verið kvartað undan vondri lykt frá svæðinu. Sú fullyrðing er meðal annars studd með vísan til úttektar verkefnastjóra umhverfismála. Þá eru gerðar athugasemdir við að HAUST hafi ekki fylgt harðar eftir athugasemdum við starfsemina en eftir ítrekuð brot ber fyrirtækinu að rýma svæðið á sinn kostnað.

Í svari HAUST segir að alltaf hafi verið brugðist fljótt við og farið á staðinn hafi kvörtun borist um lyktarmengun. Aðeins einu sinni hafi eftirlitsfólk getað staðfest lyktarmengun við svæðið. Mat starfsmanna sé því að lyktarmengun hafi ekki verið viðvarandi og aðeins bundin við það þegar múgunum sé velt við. Það sé reynt að gera í hagstæðri vindátt en í logni hafi lykt í skamma stund borist yfir íbúabyggð.

Þá gerir eftirlitið athugasemdir við að engar skráningar eða gögn rökstyðji fullyrðingu sveitarfélagsins. Mikilvægt sé að hafa samband við eftirlitið þegar kvartað sé til að hægt sé að halda yfir það skrá. Hjá eftirlitinu sjálfu eru skráðar fjórar kvartanir á sex vikna tímabili síðasta haust, en sem fyrr segir lyktarmengun aðeins staðfest einu sinni. Þá hafi þó ekki verið gripið til sérstakra ráðstafana.

Eftirlitið telur þessar kvartanir ekki grundvöll fyrir að hafna útgáfu starfsleyfis en í ljósi þeirra verði fylgst vel með starfseminni. Reglubundið eftirlit verður þrisvar sinnum á ári. Þá er starfsleyfið gefið út til fjögurra ára en ekki tólf.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.