Atburðarásin skýrari eftir því sem talað er við fleiri

Rannsókn lögreglu á hnífsstunguárás í Neskaupstað í síðustu viku miðar vel. Rólegt var hjá lögreglu í kringum rokkhátíðina Eistnaflug sem haldin var í bænum um helgina.

„Það er farin að komast mynd á atburðarásina. Hún verður betri eftir því sem maður heyrir í fleirum. Það er mikil vinna við svona mál, margs að leita og við marga að tala,“ segir Elvar Óskarsson, fulltrúi hjá lögreglunni á Austurlandi.
´
Karlmaður á fertugsaldri var síðasta fimmtudag úrskurðaður í fjögurra vikna gæsluvarðhald. Úrskurðinum var áfrýjað til Landsréttar og er niðurstöðu hans að vænta innan fárra daga.

Í stöðuuppfærslu sem fórnarlamb árásarinnar, þrítugur karlmaður, setti á Facebook um helgina segist hann hafa verið stunginn í bak og háls auk þess sem hann hafi fengið sár á hendi þegar hann reyndi að verja sig. Skýrsla var tekin af honum fyrir helgi.

Helgin var annars róleg hjá lögreglunni á Austurlandi. Þrjú minniháttar fíkniefnamál komu upp í kringum rokkhátíðina Eistnaflug en hátíðin gekk áfallalaust fyrir sig, þrátt fyrir talsverða ölvun gesta.

Umferð gekk vel í kringum hátíðina og þáðu margir ökumenn boð lögreglu um að blása í áfengismæla áður en þeir lögðu af stað heim. Talsvert er um hraðakstur í umdæminu sem lögreglan hefur reynt að stemma stigu við með að halda úti öflugu umferðareftirliti.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar