Átak til að fá leikskólakennara til starfa skilaði árangri

Öll börn sem eru á biðlista eftir leikskólaplássi á Seyðisfirði eiga að komast inn í skólana í byrjun árs. Átaksverkefni sem bærinn réðist í seint á nýliðnu ári skilaði árangri.


Foreldrar barna á biðlista leituðu til bæjaryfirvalda í nóvember en biðlistinn myndaðist vegna manneklu í leikskólanum.

Bæjarstjórn samþykkti í desember aðgerðir til að bregðast við þessu. Í fyrsta lagi fær forráðamaður barns á biðlista 100.000 króna greiðslu á mánuði frá bænum. Skilyrði er að barnið sé með lögheimili á Seyðisfirði og sé þar á biðlista. Greiðslurnar falla niður þegar barnið fær pláss og að hámarki er greitt í 11 mánuði á ári.

Þá samþykkti bæjarstjórn styrk til flutnings fyrir einstakling með leikskólakennaramenntun eða í slíku námi. Veittur er 50% afsláttur af leigu til sex mánaða af íbúð í eigu kaupstaðarins.

Í áramótaávarpi sínu til Seyðfirðinga á gamlárskvöld skýrði Aðalheiður Borgþórsdóttir, bæjarstjóri, frá því að aðgerðirnar hefðu þegar skilað árangri. Von er á tveimur nýjum leikskólakennurum til starfa í janúar og febrúar sem þýðir að öll börn á biðlista komast inn í skólann í byrjun árs.

Þurfum hugrekki til að takast á við framtíðina

Aðalheiður kom víða við í ávarpi sínu þar sem hún horfði bæði yfir nýliðið ár og fram á veginn. Hún fagnaði því að árangur hefði náðst í áratugabaráttu fyrir jarðgöngum undir Fjarðarheiði, sem eru fremst á jarðgangaáætlun samgönguráðherra sem liggur fyrir Alþingi.

Stærsta málið á síðasta ári var hins vegar undirbúningur að sameiningu Seyðisfjarðar við Fljótsdalshérað, Borgarfjarðarhrepp og Djúpavogshrepp hafa verið stærsta málið, en sameiningin tekur gildi í byrjun maí.

Aðalheiður hóf ávarp sitt á að benda á að hún væri fyrsta konan í 125 ára sögu kaupstaðarins til að gegna starfi bæjarstjóra og jafnframt síðasti bæjarstjórinn. Hún endaði ávarpið á að kalla eftir að bæjarbúar sýndu sameiningarferlinu þolinumæði, það tæki tíma og álag yrði á starfsfólk á meðan.

„Mig langar til þess að enda á að hvetja ykkur til þess að vera hugrökk, að sýna hvert öðru samkennd og að standa þétt saman. Þó svo að stjórnsýslan flytji á einn stað verður Seyðisfjörður áfram hinn einstaki Seyðisfjörður.

Við þurfum alltaf á samheldni að halda, nú ættum við að hugsa fyrst og fremst um það að standa vörð um okkar gildi, menningararf, atvinnulíf og starfsemi hverskonar sem gefið hefur okkur sérstöðu. Við þurfum hugrekki til þess að takast á við framtíðina, að tryggja það að hér haldist áfram blómleg byggð. Verum skapandi, hugrökk og góðar fyrirmyndir Leyfum okkur að þora að fara nýjar leiðir og munum að trúin flytur fjöll.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.