Átak í umferðarefirliti og bætt skráning verkefna lögreglu

Skráðum málum og verkefnum sem Lögreglan á Austurlandi hefur komið að á fyrri hluta ársins hefur fjölgað verulega ef borið er saman við undanfarin ár. Líklega er þó fyrst og fremst um að ræða áhrif af breyttri og nákvæmari skráningu verkefna, svo sem við umferðareftirlit og hraðamælingar, sem lögreglan mun á næstunni leggja sérstaka áherslu á.

Þetta kemur fram tilkynningu sem Lögreglan á Austurlandi sendi frá sér nýverið. Alls eru skráð hjá lögreglunni 4.500 mál og verkefni á fyrri hluta þessa árs, en voru innan við 3.500 á sama tíma í fyrra og um 3.000 árið 2018, sem var þá meira en verið hafði í þrjú ár þar á undan.

Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn hjá embætti Lögreglustjórans á Austurlandi, segir að þetta þýði þó ekki að álag á lögreglu sé að aukast verulega heldur endurspegli þessar tölur að einhverju leyti breytt verklag.

„Það er meira skráð af því sem við erum að gera. Þetta er meðvituð stefna því við viljum reyna að átta okkur á því hvernig við notum okkar tíma, en síðan viljum við líka gjarnan reyna að átta okkur á því hvaða aðgerðir lögreglu það eru sem skila árangri. Sem dæmi er sýnilegt eftirlit sérstaklega skráð núna, þegar við erum að setja okkur niður á tiltekna vegarkafla og þess háttar. Aukið sýnilegt eftirlit er eitt af markmiðum okkar og fækkun slysa annað og hvoru tveggja reynum við að mæla og fer auk þess prýðilega saman.“


Fjölgun skráðra heimilisofbeldismála

Í tölunum kemur einnig fram að hegningarlagabrotum fjölgar lítillega milli ára og hefur sú þróun verið viðvarandi frá 2017. Umferðarlagabrot eru svipuð að fjölda og síðustu tvö ár, hraðakstursbrot þar á meðal, en þeim hefur fjölgað nokkuð ef borið er saman við árið 2015. Fjölgun hefur verið í skráðum heimilisofbeldismálum allt frá 2017, sem og í skyldum málum sem flokkuð eru sem ágreiningur milli skyldra og tengdra, og er fjölgunin veruleg milli áranna 2019 og 2020. Kristján segir að líklega sé skýringin á þeirri fjölgun af svipuðum meiði og varðandi fjölgun verkefna almennt.

„Við könnuðum þetta hjá félagsþjónustunni í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði í kjölfar aukningar skráninga hjá okkur en félagsþjónusta hefur samkvæmt verklagi hlutverki að gegna í málum af þessu tagi. Þar er hinsvegar ekki að sjá samsvarandi fjölgun. Þannig að þetta er væntanlega líka nákvæmari skráning hjá lögreglu sem leiðir til þess að heimilisofbeldis- og ágreiningsmálum virðist hafa fjölgað hlutfallslega mjög mikið en sú er ekki endilega raunin.“


Vísbendingar um fækkun slysa

Skráð umferðarslys eru tólf það sem af er ári en voru tíu á sama tíma í fyrra. Ef heldur sem horfir ættu slys að verða talsvert færri á árinu öllu en að meðaltali undanfarin ár, hvort heldur horft er til meðaltalsfjölda slysa árin 2006 til 2019 þegar þau voru 62 eða til áranna 2015 til 2019 þegar þau voru 53.

Kristján er ánægður með þetta en varar þó við of mikilli bjartsýni. „Það er á síðustu tveimur árum sem við sjáum þessa fækkun og þessi samanburður er bara á fyrri hluta þessara ára. Af því þetta eru að jafnaði fremur lágar tölur geta orðið talsverðar sviptingar í þeim. Því væri væri óklókt að draga of víðtækar ályktanir þessum niðurstöðum. Við þurfum að fá heilt ár og nokkur ár í röð svipuð til að við getum tekið fullt mark á þessu. En það er ekki hægt að segja að fækkunin á þessu ári sé vegna þess að umferðin hafi minnkað í ljósi þess að árið 2019 var enn betra en og umferð þá meiri. Kannski má, þar til annað kemur í ljós, álykta sem svo að ökumenn séu orðnir varkárari. Það er ágætis tilgáta og jákvæð og full ástæða til að hrósa ökumönnum ef rétt reynist.“


Átak í hraðaeftirliti

Lögregla mun leggja sérstaka áherslu á hraðaeftirlit næstu tvo mánuði. Beinist það að akstri innan bæja ekki síður en utan. Í tilkynningunni hvetur lögreglan íbúa og gesti fjórðungsins til að aka ávallt í samræmi við leyfðan hámarkshraða og miða hraða við aðstæður. Þannig sé öryggi okkar best tryggt.

„Það hefur verið nokkuð virkt eftirlit hjá okkur síðustu mánuði og hefur gengið ágætlega. Við sendum út tilkynningu í byrjun júní þar sem við hvöttum íbúa til að gæta að sér og aka hægar og varlegar, enda gáfu tölur tilefni til þess. Okkur finnst við hafa séð árangur af því og við viljum viðhalda honum.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.