Ástæða til bjartsýni í makrílveiðum á næsta ári

Ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES) gefur tilefni til bjartsýni um makrílveiðar á næstunni. Nauðsynlegt er að fylgjast náið með ástandi norsk-íslenska síldarstofnsins og kolmunna.

Þetta segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) um ráðgjöf ICES um veiðar á stofnunum þremur fyrir næsta ár, en ráðgjöfin var birt í gær. Um er að ræða þrjá uppsjávarveiðistofna sem austfirsk sjávarútvegsfyrirtæki byggja afkomu sína að miklu leyti á.

Makrílstofninn stendur best af þessum þremur og er lagt til að næsta ár verði samanlagt veidd 922 þúsund tonn, sem er 20% aukning frá ráðgjöf þessa árs. Áætlað er að aflinn í ár verði 9% umfram ráðgjöf. Íslendingar gáfu út ríflega 130 þúsund tonna kvóta í ár.

„Það hefur verið mikið flökt í stofnmati og ráðgjöf ICES um makrílinn. Það hefur verið áhyggjuefni og ekki nógu traustvekjandi. Við vonum að ráðgjöfin sé rétt nú því hún gefur tilefni til bjartsýni,“ segir Jens Garðar.

Vísbendingar um að kolmunninn gefi eftir

Lagt er til að úr norsk-íslenska síldarstofninum verði veiddi 526 þúsund tonn, 11% minna en tillögurnar voru fyrir yfirstandandi ár. Stofninn hefur verið á niðurleið síðustu ár eftir slaka nýliðun. Heildaraflinn í ár er hins vegar ætlaður 774 þúsund tonn eða 31% umfram ráðgjöf. Íslenski kvótinn í ár var 102 þúsund tonn.

„Stofninn hefur verið að gefa eftir. Við höfum vísbendingar um 2016 árgangurinn sé sterkur. Það hafa ekki komið sterkir síldarárgangar lengi en einn sterkur árgangur getur haldið uppi veiði töluvert lengi. Við getum því leyft okkur smá bjartsýni um að síldin taki við sér.“

Ráðgjöf næsta árs fyrir kolmunna hljóðar upp á 1,161 milljón tonna, svipað og í ár en búist er við að veiðin í ár verði 1,44 milljón tonn, 26% umfram ráðgjöf. Íslensk stjórnvöld gáfu út 226 þúsund tonna kvóta fyrir árið.

„Ráðgjöfin er nánast óbreytt en það eru vísbendingar um að stofninn sé að gefa eftir vegna nýliðunar. Þess vegna er þörf á að fylgjast mjög vel með stofninum næstu ári,“ segir Jens Garðar.

Þörf á alþjóðlegum samningum

Stofnanir þrír dreifast allir yfir lögsögur nokkurra ríkja. Ekki hefur tekist að fá þau til að setjast niður og semja öll um hlutdeild hvers og eins í hverjum stofni. Meðan slíkir samningar eru ekki fyrir hendi ákveða sum ríkjanna sjálf veiðirétt sinn í stofnunum. Það skapar hættu á ofveiði.

Jens Garðar hvetur til þess að íslensk stjórnvöld þrýsti enn á gerð slíkra samninga. „Það er gríðarlega mikilvægt að strandveiðiþjóðirnar komi sér saman um hvernig þær skipta með sér þessum stofnun til að tryggt sé að farið sé eftir ráðgjöfinni. Norðmenn, Færeyingar og Evrópusambandið hafa samið um makríl en það eru engir samningar þegar helmingur ríkjanna, í þessu tilfelli Ísland, Grænland, Rússland, eru fyrir utan.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.