Skip to main content

Ástæða fyrir að strandveiðibátum fækkar eystra

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. júl 2022 15:15Uppfært 25. júl 2022 16:41

Strandveiðar voru stöðvaðar síðasta fimmtudag þar sem búið er að veiða þann kvóta sem gefinn var út fyrir árið. Smábátasjómenn á Austurlandi gagnrýna fyrirkomulag veiðanna sem sé svæðinu óhag þar sem þorskur gangi síðar upp að landssvæðinu. Á Norðausturlandi er verðmæti afla helmingi minna en í fyrra.


„Það er ástæða fyrir að strandveiðibátum fækkar á svæðinu. Það er búið að skaða okkur mörg ár í röð,“ segir Guðlaugur Birgisson, formaður Félags smábátaeigenda á Austurlandi.

Fyrst eftir að strandveiðar voru heimilaðar var kvótanum skipt eftir svæðum en skiptingin var afnumin 2019 og þá aðeins gefinn út einn kvóti fyrir allt landið. Smábátasjómenn á Norður-, Austur- og Suðurlandi hafa bæði fyrir og eftir bent á að breytingin hafi skaðað þeirra svæði þar sem þorskur, sem uppistafa veiðanna, gangi á ólíkum tíma inn á veiðisvæði.

Svæði A sogar til sín þorskinn og bátana

Tölur Fiskistofu eru enn flokkaðar eftir svæðunum. Austurland tilheyrir svæði C, sem nær frá Þingeyjarsveit til Djúpavogs. Þar voru 118 bátar skráðir sem veiddu alls rúm 1.476 tonn, þar af var þorskaflinn 1.326 tonn.

Til samanburðar voru 148 bátar skráðir eystra sumarið 2016. Þeir veiddu alls 2.235 tonn, þar af 2.098 tonn af þorski. Heildarkvótinn þá var nokkuð minni en nú. Austurland var þá með um fjórðung heildaraflans, en er með 17% nú. Í kílóum talði minnkar aflinn á svæði C um 759 kg. Samdrátturinn er fyrst og fremst í þorski, eftirsóttasta fiskinum, og fer hlutdeild C-svæðis í honum úr 25% í 12%.

Strandveiðarnar hefjast 15. maí og er þorskgegndin þá helst vestan við landið. Á svæði A, sem er frá Miklaholtshreppi til Súðavíkur, voru í ár skráðir 333 bátar, samanborið við 268 sumarið 2016. Þeir veiddu alls 6947 tonn eða 55,3% heildaraflans, samanborið við 38% fyrir sex árum. Þá náði A-svæðið í 58,2% þroskaflans en var með 40% áður.

Helmingi minna verðmæti á Norðausturlandi

Strandveiðarnar hafa undanfarin ár teygt sig fram í ágúst. Í ár var hins vegar góð veiði á A-svæðinu og vöruðu strandveiðimenn annars staðar við að hætta væri á að kvótinn yrði uppurinn um miðjan júní, áður en verðmætasti fiskurinn gengur inn á þeirra svæði.

Dæmi eru um að ráðherra hafi gripið inn í við svipaðar aðstæður. Grásleppuveiðum þar til 2019/20 skipt upp í sjö svæði. Árið 2020 stöðvaði þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra veiðarnar þegar landskvótinn var að klárast en heimilaði sjómönnum við Breiðafjörð að halda áfram lengur á þeim forsendum að fiskurinn væri ekki genginn inn á þeirra svæði.

„Núna var loksins byrjuð almennileg veiði við Norðausturhornið. Þótt það veiddust einhver tonn á okkar svæði í maí og júní var það tiltölulega verðlaus afli því fiskurinn fór mest í smæstu flokkana. Stóri fiskurinn gengur upp að austanverðu landinu með síldinni í seinni part sumar. Þetta þýðir að ekki næst jafn mikið út úr strandveiðunum og hægt væri,“ útskýrir Guðlaugur.

Sárabætur Austfirðinga var góð veiði á ufsa, rúmlega 133 tonn veiddust á svæði C. Það dugir þó ekki til. „Á Norðausturhorninu er aflaverðmæti strandveiða helmingur af því það var í fyrra. Það segir sitt.“

Smábátasjómenn á Norður- og Austurlandi hafa sent erindi til matvælaráðherra sem lýst hefur yfir vilja til að endurskoða svæðaskiptinguna. Guðlaugur vonast til að ráðherrann geri alvöru úr því.

„Ég er bjartsýnn á að það verði hlustað á okkur. Meðan fyrirkomulagið er svona þá drögum við stutta stráið. Við erum ekki að tala um að afnema allar breytingar sem gerðar hafa verið á kerfinu, aðeins svæðisskiptingu aflaheimilda. Til þessa hafa allar breytingar á kerfinu runnið til svæðis A,“ segir hann.

Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var Austurland sagt tilheyra svæði D og tölur gefnar upp sem slíkar. Það hefur verið lagfært. Beðist er velvirðingar á mistökunum.