Orkumálinn 2024

Asle Rønning nýr stjórnarformaður Ice Fish Farm

Asle Rønning var í morgunn kjörinn nýr stjórnarformaður Ice Fish Farm AS, móðurfélags Fiskeldis Austfjarða/Laxa sem reka allt laxeldi á Austfjörðum. Ríflega 250 milljóna hagnaður varð af rekstri félagsins á síðasta ári.

Þetta kemur fram í gögnum sem send voru Kauphöllinni í Osló vegna fundarins. Asle er kjörinn til tveggja ára og tekur við af Martin Staveli.

Embættið færist ekki langt en Staveli er fjármálastjóri Måsøval AS en Asle framkvæmdastjóri þess. Asle tilkynnti hins vegar fyrir viku að hann ætlaði að láta af því starfi, sem hann gefur gegnt síðustu sjö ár. Hann yfirgefur þó ekki samsteypuna heldur verður framkvæmdastjóri Måsøval Eiendom AS. Það félag er stærsti eigandinn að Ice Fish Farm.

Måsøval er fjölskyldufyrirtæki sem í rúm 50 ár hefur rekið fiskeldi við eyjuna Fröya, vestur af Þrándheimi. Höfuð hennar í dag, Lars Måsøval, situr einnig í stjórn Ice Fish Farm ásamt þeim Aðalsteini Ingólfssyni, Einari Þór Sverrisson og Staveli.

Ice Fish Farm átti öll hlutabréf í Fiskeldi Austfjarða en það sameinaðist nýverið Löxum. Er þar með allt fiskeldi á Austfjörðum á einni hendi. Fiskeldi Austfjarða hafði í lok síðasta árs leyfi fyrir 20.800 tonna eldi en sameinað félag 36.800 tonnum á Austfjörðum. Uppgjörið fór fram fyrir samrunann.

Ice Fish Farm átti einnig 99,5% í seiðaeldisstöðinni Rifósi við Kópasker. Fram kemur í ársskýrslu að rekstur hennar hafi gengið vel þar sem góðar aðstæður þýði að seiðin dafni vel.

Gott ár

Rekstrartekjur síðasta árs námu 323 milljónum norskra króna, eða ríflega 4,3 milljörðum íslenskra króna og jukust um 12%. Tekjurnar byggja á sölu afurða sem að mestu voru seldar til Bandaríkjanna. Þaðan komu 96,6% teknanna en afgangurinn frá Íslandi.

Í maí í fyrra var starfsleyfi fyrirtækisins breytt þannig það gat alið 6.500 tonnum meira af frjóum fiski þótt heildarmagnið héldist óbreytt. Það slátraði rúmlega 5.450 tonnum, um 30% meira en á síðasta ár. Hagnaður félagsins, eftir skatta og fjármagnsliði, var tæpar 20 milljónir norskra króna eða yfir 250 milljónir íslenskra. Starfsmönnum fjölgaði úr 44 í 51.

Eignir félagsins eru metnar á 1,7 milljarð norskra króna eða 23 íslenskra. Stærst eru þar starfsleyfin sem bókfærð eru á 618 milljónir norskra eða 8,3 milljarða íslenskra. Lífmassi er metinn á 377 milljónir norskra eða rúma fimm milljarða íslenskra. Sem kunnugt er hefur fyrirtækinu nú verið gefinn frestur til að slátra öllum fiski úr sjó eftir að veiran blóðþorri greindist í öllum þeirra Austfjarða sem eldi er stundað í.

Gerð er grein fyrir því að skuldir félagsins hafi vaxið vegna fjárfestinga upp á 302 milljónir norskra eða fjóra milljarða íslenskra. Rætt er um fjárfestingar í búnaði, bæði í seiðaeldinu en líka nýjum fóðurprömmum sem væntanlegir séu um mitt þetta ár. Á sama tíma lækkar hlutfall skammtímaskulda sem hlutfall af heildarskuldum.

Í kafla um áhættu í rekstrarumhverfinu er minnst á sveiflur íslensku krónunnar, sem framleiðslukostnaðurinn er í, meðan tekjurnar séu flestar í Bandaríkjadollurum. Eins er minnst á áhættusamt geti verið að selja nær alla framleiðsluna til eins stórs kaupanda.

Hreinn sjór á Austfjörðum er sagður skila hágæða laxi sem sé yfir 3,5 kg að meðaltali þegar honum er slátrað. Fyrirtækið er eina laxeldisfyrirtækið í heiminum með AquaGAP vottun, um sjálfbærni sjávarafurða. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.