Margir taka undir áskorun um bætt aðgengi landsbyggðarfólks að Háskóla Íslands

Rúmlega fimmtán hundruð einstaklingar hafa nú skrifað undir áskorun þess efnis að bæta aðgengi landsbyggðarfólks að námi við Háskóla Íslands (HÍ.) Greinilegt er að málið hefur snert taugar margra úti á landi.

Austurfrétt greindi frá málinu fyrr í vikunni en þeim stöllum Agnesi Klöru Ben Jónsdóttur og Stefaníu Hrund Guðmundsdóttur blöskraði svo afar takmarkaðir möguleikar á fjarnámi við þessa helstu menntastofnun landsins að þær skrifuðu harðorðan pistil um málið sem birtist á vefmiðlinum Vísi.

Þar gagnrýndu þær að varla væri hægt að stunda nám við HÍ fyrir margt fólk úti á landi sem ekki ætti þess kost að flytja á höfuðborgarsvæðið og búa þar um nokkurra ára skeið. Meirihluti námsbrauta skólans miðast við að námið sé staðbundið í Reykjavík. Þetta sé raunin á sama tíma og Háskólinn á Akureyri og velflestir betri háskólar heims bjóði flestallt nám að stærstu eða öllu leyti gegnum netið vandræðalaust.

Þetta fæst staðfest ef rýnt er í svör Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, við fyrirspurn Líneikar Önnu Sævarsdóttur um fjarnám á Alþingi á síðasta þingi. Í svörum hennar kemur fram að HÍ leggi lykiláherslu á gott og framsækið staðnám fyrir nemendur skólans með aðstoð upplýsingatækni. Skólinn vinni þó að því að auka rafrænt aðgengi og meðal annars með stofnun sérstakrar deildar rafrænna kennsluhátta.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.