Ásdís Helga verkefnastjóri samfélagsverkefnis í Fljótsdal

Ásdís Helga Bjarnadóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri samfélagsverkefnisins Fagrar framtíðar í Fljótsdal.

Ásdís Helga er fædd árið 1969 og ólst upp á Hvanneyri. Hún hefur fjölbreytta náms- og starfsreynslu.

Ásdís Helga nam meðal annars við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað en hún lauk síðan B.Sc. námi í búsvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands og útskrifaðist frá Norges Landbrugshögskole með Cand.Agric.- gráðu árið 1997. Auk þess sem hún lauk leiðsögumannanámi við Ferðamálaskóla Íslands 2011, stundaði hún nám í forystu og stjórnun við Háskólann á Bifröst og lauk MA-gráðu frá Háskólanum á Hólum á þessu ári í ferðamálafræðum með áherslu á viðburðastjórnun.

Ásdís Helga hefur undanfarin ár starfað sem sérfræðingur innan veiði- og verndarteymis hjá Umhverfisstofnun með aðsetur á Egilsstöðum. Áður hefur hún meðal annars kennt við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og starfað fyrir Matvælastofnun á Austurlandi.

Ásdís Helga hefur ennfremur víðtæka reynslu úr félagsstörfum en hún er forseti Rótarýklúbbs Héraðsbúa og var nýverið tilnefnd sem umdæmisstjóri Rótarý á Íslandi 2021-2022. Áður var hún meðal annars varaformaður Ungmennafélags Íslands og Sambandsstjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar auk þess að sitja um tíma í stjórn Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands.

Ennfremur hefur Ásdís Helga starfað í nefndum sveitarfélaga innan menningar- og æskulýðsmála. Þá hefur hún tekið virkan þátt í störfum kvennasamtaka, norrænu samstarfi á sviði æskulýðs- og landbúnaðarmála sem og á sviði íþrótta; auk þess æft, keppt og þjálfað ýmsar íþróttagreinar.

Ráðið er í starfið í gegnum Austurbrú. Í fréttatilkynningu stofnunarinnar kemur fram að Ásdís Helga muni hefja hefja störf í október og hafa aðsetur á Egilsstöðum með reglulegri viðveru í Fljótsdal.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.