Ari Trausti: Fólk sagði mér að bjóða mig ekki fram því ég tæki fylgi frá Þóru

ari_trausti_egs_24042012_web.jpgAri Trausti Guðmundsson segir að lagt hafi verið að honum að bjóða sig ekki fram til forseta Íslands þar sem það gæti spillt möguleikum Þóru Arnórsdóttur á að fella sitjandi forseta, Ólaf Ragnar Grímsson. Ari Trausti heimsótti yfir tuttugu staði á ferð sinni um Seyðisfjörð og Egilsstaði í gær og heldur áfram ferðinni um Fjarðabyggð í dag.

 

„Fólk sagði mér að bjóða mig ekki fram því þá tæki ég atkvæði frá Þóru sem gæti fellt Ólaf. Ég vil ekki fá samviskubit yfir því að bjóða mig fram þótt það myndi valda því að Ólafur sæti áfram,“ sagði Ari Trausti á framboðsfundi á Kaffi Egilsstöðum í gær.

„Ég tel mig eiga góða möguleika því frambjóðendurnir eru svo ólíkir. Ég ákvað að bjóða mig fram því mig langaði til þess og ég virtist fá verulegt fylgi úr óformlegum könnunum.“

Vill vökva þurrt embætti

„Ég ákvað að tilkynna um framboð mitt á sumardaginn fyrsta, bæði vegna þess að ég var að gefa út bók þann dag en það er líka dagur bjartsýni sem er eitt af kjörorðum mitt í baráttunni,“ sagði Ari Trausti.

Bjartsýnin er eitt af kjörorðum hans í baráttunni ásamt „jafnrétti, mannauður, heiðarleiki, sanngirni og ábyrgð.“. „Mér fannst vanta hugsjónir sem leiða okkur út þessa öld og inn í þá næstu.“

Bækurnar eru Ara Trausta líka hugleiknar. Þær eru orðnar ríflega fjörutíu, þar af tíu skáldsögur. „Mér fannst ágætt að vökva þetta þurra embætti með þeirri reynslu. Ég hef reynslu tengda ferðalögum til landa sem fáir hafa heyrt um.“

Forsetinn á að efna til umræðna

Ari Trausti segist líta svo á að hlutverk forsetans sé að „efna til umræðna og samræðna um erfið málefni, spyrja erfiðu spurninganna.“ Hans persónulegu skoðanir liggi til hliðar.

„Forseti segir ekki beint út sínar skoðanir, þá brýt ég niður traust sem aðaltrúnaðarmaður fólksins í landinu. Mín afstaða með eða á móti er ekki höfuðatriði heldur afgreiðslan á málinu. Mikilvægast er að benda á lausnir og málamiðlarnir.“

Bónusframboð

Ari Trausti hefur ferð sína um Fjarðabyggð í Molanum á Reyðarfirði klukkan 10:30 í dag. Á Eskifirði verður hann í Egersund netaverkstæðinu klukkan tvö og Hulduhlíð klukkutíma síðar. Ferðinni lýkur með opnum fund í Egilsbúð í Neskaupstað klukkan átta kvöld. 

Hann segist ekki vita hvort hann komi aðra ferð austur, það fari eftir fjármagni og tíma framboðsins. „Þetta bónusframboð, eins skilvirkt og hægt er fyrir sem allra minnstan pening. Það er háð framlögum. Ég vil telja kostnaðinn í milljónum en ekki tugum milljóna.“

Slagorðið er „Ari Traustari“, sem hann segir brandara sem vinir hans hafi fundið upp. Hann stefnir á að vera 1-2 kjörtímabil í embætti, nái hann kjöri.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.