Arctic Adventures kaupir í Óbyggðasetrinu: Veitir aðgang að öflugu markaðsneti

Arctic Adventures gekk i gær frá kaupum á eignarhlut Icelandic Tourism Fund í fimm afþreyingafyrirtækjum í ferðaþjónustu. Eitt fyrirtækjanna er Óbyggðasetur Íslands i Fljótsdal. Framkvæmdastjóri setursins vonast til að viðskiptin verði til að efla það sem og austfirska ferðaþjónustu.

„Í gegnum Arctic Adventures fáum við aðgang að markaðsneti. Þetta er það íslenska ferðaþjónustufyrirtæki sem farið hefur hvað fremst i markaðssetningu, einkum á netinu og í beinni sölu,“ segir Arna Björg Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Óbyggðasetursins.

Iceland Tourism Fund (ITF) er framtakssjóður í rekstri Landsbréfa sem stofnaður var árið 2013 að frumkvæði Icelandair Group. Markmiðið með stofnun sjóðsins var að fjárfesta í uppbyggingu afþreyingartengdrar ferðaþjónustu á Íslandi og stuðla þannig að fjölbreyttari afþreyingarkostum fyrir ferðafólk á Íslandi og styrkja landið sem áfangastað, meðal annars verkefnum á landsbyggðinni.

Eitt þessara verkefna var uppbygging Óbyggðasetursins. „Það er ekki auðvelt að fjármagna frumkvöðlaverkefni á jaðarsvæðum og því var það í sjálfu sér mikil viðurkenning á viðskiptahugmyndinni á sínum tíma að fá sjóðinn í lið með okkur. Engu að síður hefur uppbyggingin kostað svita og tár og við persónulega lagt mikið að veði. “ segir Arna.

Markaðssetning sem fleiri njóta góðs af

Samkomulagið frá í gær felur annars vegar í sér kaup Arctic Adventures á öllum hlutum í Into the Glacier, sem er að baki íshelli í vestanverðum Langjökli og eignarhlut ITF í Óbyggðasetrinu, Raufarhólshelli í Ölfusi, Borea Adventures á Ísafirði og leiksýningunni „Icelandic Sagas – The Greatest Hits“ í Hörpu.

Arna Björg segir viðskiptin ekki hafa neinar breytingar á rekstur Óbyggðasetursins. Hún bindur vonir við að tilkoma Arctic Adventures efli bæði setrið og Austurland.

„Óbyggðasetrið er orðinn áfangastaður með fjölbreyttri þjónustu og afþreyingu. Við erum einnig ferðaskrifsstofa sem bíður upp á fjölbreyttar ferðir á Austurlandi. Nýjasta viðbótin er svo tilkoma heitra lauga, baðhúss og stjörnuskoðunarstöðvar. Við vonum að sú viðbót eigi eftir að höfða vel til heimamarkaðar þannig að saumaklúbbar, fyrirtækjahópar og félagasamtök á svæðinu getið notið allt árið um kring.

Við höfum verið í framkvæmdum frá árinu 2012 og vonumst til að gera einbeitt okkur núna betur að markaðssetningu, frekari vöruþróun og unnið það í góðu í samstarfi við Arctic Adventures. 

Það skiptir Austurland líka máli að þarna er öflugt fyrirtæki sem leggur fjármuni í markaðssetningu, vissulega bara á einum áfangastað, en það ættu að verða til samlegðaráhrif sem fleiri geta notið góðs af.

Markaðssetning er gríðarlega kostnaðarsöm sérstaklega ef um nýja áfangastaði er að ræða á svæði sem er lítið þekkt, svo dýr að engan órar fyrir því fyrr en hann stendur frammi fyrir því. Það hefur sérstaklega vantað öflug fyrirtæki til að markaðssetja Austurlands en tilkoma Arctic Adventures mun vonandi leggja lóð á vogaskálar í þá átt. Hafa ber þó í huga að ekki er búið að ganga endanlega frá kaupunum. “

Frábær staður sem byggður hefur verið upp af metnaði

Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Arctic Adventures, segir samstarfið við Óbyggðasetrið efla starfsemi fyrirtækisins á landsbygðinni.

„Við erum með mikið af hringferðum og sjáum til að til að nýta Óbyggðasetrið inn í þær ferðir. Setrið er frábær staður sem byggður hefur verið upp af miklum metnaði og við hlökkum til að halda það áfram með Örnu og Steingrími Karlssyni.”

Við eigum eftir að sjá hvernig við vinnum best saman en vonandi getum við styrkt hvort annað í markaðsmálum. Markaðssetning á netinu er lykilatriði í ferðaþjónustu og við höfum fjárfest mikið í henni á síðustu árum.

Okkar fyrirtæki hefur stækkað ört sem afþreyingarfyrirtæki. Til þessa höfum við mest unnið í kringum Reykjavik og meðfram suðurströndinni en hringferðirnar hafa sótt í sig veðrið síðustu ár og okkur þykir spennandi að taka þátt í uppbyggingu i fleiri landshlutum.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar