Appelsínugul viðvörun gefin út vegna rigningar á morgun

Veðurstofan hefur gefið út nýjar viðvaranir vegna rigningarinnar sem hófst í nótt á Austurlandi. Gular viðvaranir eru á báðum austfirsku veðurspásvæðunum í dag en á miðnætti tekur appelsínugult ástand við. Með lengri tíma aukast líkurnar á flóðum eða skriðuföllum. Helst er hættan talin við lengri árfarvegi.

Gul viðvörun tók gildi fyrir Austfirði klukkan níu í morgun. Klukkan ellefu gekk í gildi sambærileg viðvörun fyrir Austurland. Báðar viðvaranir standa til miðnættis. Þá tekur við appelsínugul viðvörun sem gildir fyrir bæði spásvæðin í sólarhring.

„Afleiðingarnar af rigningu aukast eftir því sem hún er samfelld lengur. Þegar jarðvegurinn mettast eru meiri líkur á flóðum eða skriðuföllum,“ segir Eiríkur Örn Jóhannesson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands.

Í fyrstu er fólki ráðlagt að hreinsa frá niðurföllum til að forðast óþægindi. Þegar líður á aukast líkurnar á stærri atburðum, svo sem flóðum eða skriðuföllum eða að fráveitukerfi hafi ekki undan.

Í frétt frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar í morgun var bent á að úrkoman gæti orðið 300 mm á tveimur sólarhringum. Eiríkur segir erfitt að áætla slíkar magntölur en útlit sé fyrir einhver hundruð millimetra yfir næstu tvo sólarhringa.

Eiríkur segir ekki von að stytti upp yfir þennan tíma að ráði þótt úrkoman veðri ekki fullkomlega stöðug. Líkur eru á að áfram rigni fram á miðvikudag. „Það er erfiðra að vera með nákvæmari spá fram í tímann. Þess vegna bíðum við með stórar fullyrðingar. Aðvaranir eru endurskoðaðar og stundum lengdar eða styttar.“

Aðspurður um nánari staðsetningu úrkomunnar segir Eiríkur helst líkur á að mest rigni á norðanverðum Austfjörðum, það er frá svæðinu milli Norðfjarðar og Borgarfjarðar.

Fulltrúar ofanflóðadeildar Veðurstofunnar hafa fundað með almannavörnum á Austurlandi. Þar er von á frekari tilkynningum ef ástæða þykir til að grípa til aðgerða. Fundað er aftur klukkan 13:00. Lögregla hvetur íbúa til að fylgjast vel með Veðurspá og tilkynningum almannavarna og lögreglu.

Hjá ofanflóðadeildinni fengust þó þær upplýsingar að ekki sé óttast um djúpar skriður heldur spýjur einkum úr árfarvegum sem teygja sig hátt til fjalla. Í frétt ofanflóðadeildarinnar frá í morgun segir að efsta lag jarðvegar á Austurlandi hafi blotað síðustu daga en undir sé þurrt. Almennt tekur aðeins rakur jarðvegur betur við úrkomu en alveg þurr.

Töluvert hefur rignt á Austfjörðum það sem af er degi. Mest á Ljósalandi í Fáskrúðsfirði þar sem úrkoman á hádegi var komin í 46,4 millimetra en einnig á 41 mm. í Neskaupstað og 37 mm. á Borgarfirði.

Mynd: Ómar Bogason

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.