Angró féll saman í óveðrinu

Veggir Angró, sögufrægs húss á svæði Tækniminjasafns Austurlands á Seyðisfirði, féllu saman í óveðrinu í dag. Björgunarsveitarfólk hefur haft nóg að gera þar.


„Það er býsna hvasst og dálítið að gera,“ segir Helgi Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Ísólfs sem staddur var í húsnæði sveitarinnar þegar Austurfrétt náði tali af honum á sjötta tímanum í dag.

Um klukkan fimm var lokað fyrir umferð fyrir utan smábátahöfnina því brak var farið að fjúka úr Angró. Helgi segir björgunarsveitina ekki geta hafnað sig nærri því. „Veðrið er þannig að ekki er þorandi að fara nálægt þessu. Það er búið að loka útbænum til að tryggja öryggi borgaranna.

Veggir hússins eru fallnir og húsið hefur brotnað einhvern vegin saman,“ segir Helgi um húsið sem skaddaðist í skriðuföllunum í desember 2020. Hugmyndir hafa verið viðraðar um flutning þess.

Helgi segir „alls konar fok“ í bænum. Einn bátur hafi slitnað frá bryggju í smábátahöfninni en tekist að koma skjótt á hann böndum aftur. Víðs vegar í bænum hafi tré rifnað upp með rótum eða brotnað. Þá sé þó nokkuð um brotnar rúður.

Sjávarstaða var há fyrr í dag en hefur nú gengið til baka. Helgi vonast til að veðrið sé heldur að ganga niður. „Það eru ekki jafn miklar rokur og voru.“

Mynd: Helgi Haraldsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.