Andlát: Vilhjálmur Einarsson

Vilhjálmur Einarsson er látinn, 85 ára að aldri. Vilhjálmur ávann sér frægð með að verða fyrsti Íslendingurinn til að vinna til verðlauna á Ólympíuleikum, er hann vann silfurverðlaun í þrístökki á leikunum í Melbourne í Ástralíu árið 1956. Hann varð síðar fyrsti skólameistari Menntaskólans á Egilsstöðum.

Vilhjálmur lést á Landsspítalanum laugardaginn 28. desember. Hann fæddist á Hafranesi við Reyðarfjörð 5. júní árið 1934. Hann var sonur hjónanna Einars Stefánssonar frá Mýrum í Skriðdal, fulltúa á Egilsstöðum, og Sigríðar Vilhjálmsdóttur frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Vilhjálmur gekk í barnaskólann á Reyðarfirði, farskólann á Völlum, Gagnfræðaskólann á Seyðisfirði og Alþýðuskólann á Eiðum.

Að loknu landsprófi frá Eiðum innritaðist Vilhjálmur í Menntaskólann á Akureyri árið 1951 og útskrifaðist sem stúdent frá stærðfræðideild vorið 1954. Haustið 1954 hlaut Vilhjálmur skólastyrk við Dartmouth-háskólann í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með BA-próf með áherslu á listasögu. Þá sótti Vilhjálmur framhaldsnám í uppeldis- og kennslufræði við Gautaborgarháskóla 1974-1975 og 1990-1993.

Vilhjálmur starfaði sem kennari víða um land. Hann var skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti 1965-1979 en flutti sig þá austur og varð fyrsti skólameistari ME. Því starfi gegndi hann til 2001, að undanskildu þriggja ára námsleyfi í Svíþjóð. Hann hélt áfram að kenna við skólann.

Silfurverðlaunin voru ekki eina afrek Vilhjálms á íþróttasviðinu enda var hann fimm sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Enn hefur enginn hlotið þá nafnbót oftar. Eftir að ferlinum lauk kom hann ötullega að uppbyggingu íþróttastarfs hvar sem hann kom og fékk Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála. Vilhjálmur var einnig liðtækur listmálari og eftir hann liggur fjöldi málverka sem mörg sýna austfirskt landslag.

Þegar nýr íþróttavöllur var vígður á Egilsstöðum árið 2001 var honum gefið nafnið Vilhjálmsvöllur til heiðurs Vilhjálmi. Árið 2016, þegar 50 ár voru liðin frá leikunum í Melbourne, var afhjúpað listaverk utan við völlinn sem sýnir stökkið, 16,25 metra.

Fröken Lukka

„Ég sagði við sjálfan mig, auðvitað þarf allt að lukkast, það er fröken Lukka sem stundum er með og stundum ekki. Ef hún er nú með þá hef ég undirbúið mig sem aldrei fyrr og ég á að geta stokkið lengra en ég hef gert áður. En að bæta mig enn um hálfan metra, það var eitthvað sem mig óraði ekki fyrir.

Þegar kemur að keppninni sjálfri þá þarf maður að útiloka allt, áhorfendur og allt. Þetta var óskaplega spennandi en ég gerði ógilt í fyrstu tilraun. Það voru margir keppendur og því langt á milli stökka. Ég gekk út á völlinn, settist flötum beinum og hallaði mér upp að stórum steinvaltara. Þá líka gerðist eitthvað sem ekki er hægt að lýsa almennilega með orðum, ég komst í einhvers konar algleymisástand.

Ég gerði það áheit að ef ég stæði mig vel myndi ég nýta áhrif mín til góðs fyrir íslenska æsku. Það er eins og við manninn mælt, þetta stökk tókst með ágætum en það var svo fínt á plankanum að dómararnir stóðu lengi, mér fannst það heil eilífð, en loksins kom flaggið. Þetta má nú ekki misskiljast, en þegar ég stökk þetta svokallaða „silfurstökk“, þá er það með allra auðveldustu stökkum sem ég hef stokkið. Tæknin tókst svo vel og einbeitingin er hundrað prósent. En að bæta mig eftir þetta í keppninni, það var aldeilis útilokað.

Það varð uppi fótur og fit þegar ljóst var að ég væri með forystuna, sérstaklega varð örvænting hjá lúðrasveitinni sem hafði alls ekki búið sig undir það að þurfa að leika íslenska þjóðsönginn, en Da Silva bjargaði þeim frá því,“ sagði Vilhjálmur er hann rifjaði upp stökkið í viðtali við Austurgluggann árið 2016.

Eftirlifandi eiginkona Vilhjálms er Gerður Unndórsdóttir. Þau eignuðust sex syni, Rúnar, Einar, Unnar, Garðar, Hjálmar og Sigmar. Útför Vilhjálms fer fram frá Hallgrímskirkju þann 10. janúar næstkomandi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.