Ályktun um Reykjavíkurflugvöll flæktist fyrir austfirskum sveitarstjórnum

Ályktun, sem oddvitar Sjálfstæðisflokksins í sveitarstjórnum víða um land hafa lagt fram vegna byggingaframkvæmda í nágrenni Reykjavíkurflugvallar, hefur vafist fyrir austfirskum sveitarstjórnum. Ályktunin klauf meirihlutann í bæjarráði Fjarðabyggðar en í Múlaþingi kusu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gegn upphaflegu ályktuninni þegar hún var lögð fram.

Fjórtán leiðtogar félaga Sjálfstæðisflokksins eða framboða hans í sveitarstjórnum landsins sendu frá sér ályktun í byrjun maí þar sem gagnrýnt var að haldið verði áfram með uppbyggingu byggðar í Skerjafirði þrátt fyrir að sýnt þyki að hún muni hafa áhrif á aðflug að Reykjavíkurflugvelli.

Meðal þeirra sem skrifuðu undir ályktunina voru oddvitar flokksins í austfirskum sveitarstjórnum, þau Berglind Harpa Svavarsdóttir sem jafnframt er formaður byggðaráðs Múlaþings og Ragnar Sigurðsson í Fjarðabyggð.

Leiðtogarnir hafa síðan fylgt ályktuninni eftir með að leggja hana fram í sínum sveitarstjórnum. Samkvæmt athugun Austurfréttar er hún komin í gegn í níu af fjórtán sveitarfélögum, með mismiklum breytingum. Það eru einmitt þær, einkum eitt orð „innviðaráðuneytið“, sem hefur breyst - það er að segja fallið út.

Klofningur í Fjarðabyggð


Í þremur sveitarfélögum hefur hún farið óbreytt í gegn. Í Dalvíkurbyggð, Fjallabyggð og Fjarðabyggð. Í fyrri tveimur sveitarfélögunum var hún samþykkt í bæjarráð með öllum atkvæðum en í Fjarðabyggð klofnaði meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalista þegar fulltrúi Fjarðalistans samþykkti bókunina óbreytta en Framsóknarflokkurinn lagði fram eigin bókun.

Í ályktuninni er í grófum dráttum lýst yfir þungum áhyggjum vegna ákvörðunar innviðaráðuneytis og Reykjavíkurborgar vegna uppbyggingarinnar og hún sögð brjóta gegn forsendum samkomulags borgar og ríkis frá 2019 um að framtíð vallarins væri tryggð þar til nýr yrði tilbúinn. Þar er bent á að völlurinn sé mikilvægur fyrir landbyggðirnar og byggðin vegi að sjúkraflugi og aðgengi almennings og atvinnulífs að mikilvægri þjónustu í höfuðborginni. Henni lýkur á áskorun til borgarstjórnar og innviðaráðherra að fresta ákvörðun þar til framtíðarlausn innanlandsflugsins sé tryggð.

Bókun Þuríðar Lillýjar Sigurðardóttur, fulltrúa Framsóknarflokks, er orðuð öðruvísi en að mestu efnislega eins, að flugvöllurinn er mikilvægur fyrir tryggar samgöngur fyrir landsbyggðina og öryggis- og hagsmunamál að hann þjóni sínum hlutverkum. Þar er hins vegar ekki minnst á hlutverk innviðaráðuneytisins heldur orðunum beint til Reykjavíkurborgar, sem hafi skipulagsvald yfir Skerjafirði og ætti því ekki að stofna rekstraröryggi flugvallarins í hættu.

Hér verður að taka fram að formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, er innviðaráðherra. Sambærilega breytingu er þó víðar að finna á ályktuninni, svo sem á Akureyri, Vestmannaeyjum þar sem ályktunin var samþykkt með öllum atkvæðum. Þar eru þó ekki B-listar. Eins var í Húnabyggð en þar er B-listi í meirihluta. Bæjarstjórnir Ísafjarðar og Bolungarvíkur skrifuðu í raun nýjar bókanir í svipuðum stíl og Þuríðar. Þar eru heldur ekki B-listar.

Lagði fram upphaflegu tillöguna


Í Múlaþingi mynda Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur meirihluta. Fulltrúar meirihlutans lögðu fram og samþykktu mikið breytta ályktun á sveitarstjórnarfundi fyrir viku. Þar er minnt á mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir sjúkraflug og aðgengi almennings og atvinnulífs að innviðum. Vísað er til þeirrar samgönguáætlunar sem gildir til ársins 2034 um að völlurinn skuli þjóna innanlandsflugi meðan ekki sé jafn góður kostur fyrir hendi. Þess vegna er Reykjavíkurborg hvött til að virða samkomulagið frá 2019 um að fara ekki í uppbyggingu sem haft geti áhrif á flug- og rekstaröryggi vallarins.

Fulltrúar meirihlutans sátu hjá við afgreiðsluna eftir að hafa áður greitt atkvæði með breytingartillögu sem Eyþór Stefánsson, fulltrúi Austurlistans, lagði fram. „Ef ykkur finnst tillagan hljóma kunnuglega þá er það vegna þess að þetta er upphafleg bókun Sjálfstæðisflokksins. Mér finnst hún persónulega betri,“ sagði Eyþór þegar hann lagði fram bókun oddvita Sjálfstæðisflokksins á landsvísu. Fulltrúar meirihlutans greiddu atkvæði gegn breytingunni og felldu hana.

Þvælast flokkslínur fyrir?


Eyþór fylgdi bókuninni eftir með gagnrýni á að innviðaráðherra væri sleppt úr ályktun meirihlutans. „Þetta er skýrt dæmi um að flokkslínur þvælast fyrir. Framsóknarmenn víða um land hafa farið í vörn fyrir ráðherrann. Ég held að okkur veiti ekki af æfingu við að gagnrýna innviðaráðherra því ég óttast að nægar ástæður til þess séu framundan.

Þetta mál hefur birtingarmyndir alls þess sem er óþolandi í íslenskri minni- og meirihlutapólitík. Það skiptir ekki máli hvort það sé meirihluti fyrir máli í sveitarstjórn, heldur þarf að vera meirihluti innan meirihlutans,“ sagði hann.“

Eyþór síðar og einnig Ásrún Mjöll Stefánsdóttir, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, spurðu fulltrúa meirihlutans af hverju upphafleg ályktun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins gæti ekki staðið óbreytt og hver væru rökin að baki því að sleppa innviðaráðherra við gagnrýni.

Berglind Harpa hafnaði því að nokkur afsláttur væri gefinn á bókuninni heldur væri hún umorðuð líkt og fleiri sveitarfélög hefðu gert. Innan meirihlutans hefði verið tekin umræða um hana og bókunin talin öflug. Hún benti á að Reykjavíkurborg gæfi út framkvæmdaleyfi fyrir byggðinni og þess vegna væri orðunum beint þangað sem valdið væri. Mikilvægt væri að huga að því hvernig best væri að koma málum til leiðar.

Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar og oddviti Framsóknarflokks, sagði að í þessu máli sem öðrum í sveitarstjórn Múlaþings hefði verið reynt að finna orðalag fyrir ályktanir sem allir gætu verið sammála um. Því myndi hún ekki frekar í þessari umræðu né annarri fara ofan í samskipti við undirbúning bókanna fyrir fund. Hún sagði flokkslínur ekki mega þvælast fyrir í málinu en bókuninni væri beint til Reykjavíkurborgar því fyrst og fremst væri um skipulagsmál að ræða.

Í fyrstu gagnrýndi Eyþór að hann hefði þurft að biðja sérstaklega um að ályktunin væri tekin fyrir sem sérliður á fundi sveitarstjórnar frekar en vera afgreidd í gegnum byggðaráð vegna þess hve mikilvægt málið væri en fundist meirihlutinn ekki ætla að verða við því. Hann dró síðar í land eftir andsvör. Jónína og Berglind Harpa sögðu vegið að meirihlutanum með slíkum ásökunum, aldrei hafi staðið til að taka ályktunina ekki fyrir en misjafnt væri hvort hún væri afgreidd af bæjarráði eða sveitarstjórn. Athugun Austurfréttar sýnir að fimm af níu sveitarfélögum sem afgreitt hafa ályktunina gerðu það í gegnum sveitarstjórn en fjögur, meðal annars Akureyri og Fjarðabyggð, í gegnum bæjarráð.

Múlaþing taki við sem höfuðborg Íslands


En ekki eru allar tillögurnar undir þessum lið upp taldar. Þröstur Jónsson, fulltrúi Miðflokksins, sagði fram tillögu þar sem því er fagnað að Reykjavíkurborg væri að reyna að afsala sér höfuðborgartitlinum með stöðugri aðför að Reykjavíkurflugvelli. Því óski Múlaþing eftirviðræðum við borgaryfirvöld um að Múlaþing taki að sér hlutverk höfuðborgar. Samhliða verði rætt við ríkið um að flugvöllurinn og aðrir ríkisinnviðir höfuðborgar verði fluttir til Múlaþings. Þá verði ráðist í framkvæmdir við Borgarlínu, það er Axarveg, Fjarðarheiðargöng og Lagarfljótsbrú til að undirbúa Múlaborg undir að taka við höfuðborgarhlutverkinu. Meirihlutinn felldi tillöguna meðan meirihlutinn ýmist greiddi atkvæði með henni eða sat hjá.

Í umræðunni vísaði Eyþór til sögunnar, þegar Bandaríkin keyptu Alaska af Rússlandi. Sveitarfélögin á landsbyggðinni gætu farið eins að, skotið saman fyrir landinu í Vatnsmýrinni sem Reykjavíkurflugvöllur stendur á og á sama fengi borgin fjármuni til að laga hallarekstur sinn.

Ósannfærandi mótvægisaðgerðir


En hvað sem líður orðalagi í tillögum þá voru sveitarstjórnarfulltrúar í Múlaþingi sammála um að uggur væri í þeim vegna framkvæmda í nágrenni flugvallarins. Í skýrslu starfshóps innviðaráðuneytisins um áhrif byggðar í Skerjafirði á Reykjavíkurflugvöll, sem kom út í lok apríl og kveikti þessa umræðu, segir að fyrirhuguð byggð muni breyta vindafari við flugvöllinn, einkum með aukinni ókyrrð, og skerði nothæfi hans. Hins vegar séu ekki næg gögn fyrir hendi til fullyrða að byggðin hafi slík áhrif á völlinn að þörf sé að hætta við hana. Því voru ráðuneytið og borgin sammála um að halda áfram með að hefja jarðvinnu í Skerjafirði.

Í skýrslu starfshópsins eru nefndar mótvægisaðgerðir, einkum aukin gagnaöflun um mögulega ókyrrð og að þeim verði miðlað til flugmanna. „Mann uggar við lestur skýrslunnar. Mótvægisaðgerðirnar felast aðallega í að skoða þetta og hitt. Við skulum skoða þetta áður en við tökum ákvarðanir,“sagði Eyþór.

„Mótvægisaðgerðirnar eru síst sannfærandi. Þess vegna skiptir máli að í deiliskipulagi sé skýrt svarað hvernig Reykjavíkurborg ætli að fara af stað og framkvæmdir verði ekki hafnar nema flug- og rekstraröryggi vallarins sé á hreinu. Reykjavík er ekki bara sveitarfélag heldur höfuðborg og verður að eiga samtal við landsbyggðina um málefni, svo sem flugvöllinn,“ sagði Jónína.

Berglind Harpa sagði skipulagsvald eins sveitarfélags ekki mega ógna lífi annarra, eins og sé með sjúkraflug af landsbyggðinni þar sem mínútur geti skipt máli í bráðaerindum. Hún sagði sporin hræða því einni af þremur flugbrautum vallarins hefði verið lokað við byggingu nýs hverfis við Hlíðarenda. Eftir það hefði flug þurft að lenda í meiri hliðarvindi í Reykjavík og jafnvel ekki.

Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti VG, sagði ekki í lagi að halda áfram með byggðina í Skerjafirði fyrr en fyrir liggi að hún raski ekki flugi og sagði að innviðaráðuneytið hefði átt að staldra við að svo búnu máli.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.