Alþjóðleg rannsókn á fíkniefnasmygli

Rannsókn á smygli með fíkniefnum með Norrænu í síðustu viku er umfangsmikil og teygir sig til nokkurra landa. Lögregla verst frétta af gangi rannsóknarinnar.

Tveir erlendir karlmenn voru á laugardag úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald en þeir voru stöðvaðir með fíkniefni í fórum sínum við komuna með Norrænu til Seyðisfjarðar síðasta fimmtudag.

Komið hefur fram í fjölmiðlum að um sé að ræða bæði eitt mesta og verðmætasta magn fíkniefna sem náðst hefur hérlendis. Mbl.is greindi frá því að um hefði verið að ræða 45 kg af amfetamíni og kókaíni falin í hólfum í bíl mannanna sem fíkniefnahundur lögreglunnar á Austurlandi merkti sem grunsamlegan.

Lögreglan á Austurlandi hefur ekki viljað staðfesta magn efnanna né samsetningu þeirra. Þar fengust þær upplýsingar í morgun að rannsóknin væri skammt á veg komin. Hún væri umfangsmikil og tímafrek en lögreglan á Austurlandi vinnur að málinu í samvinnu við lögregluna á höfuðborgarsvæðinu og Þýskalandi.

Á fimmtudag rennur út gæsluvarðhald yfir karlmanni sem setið hefur í haldi frá 11. júlí fyrir að hafa stungið annan mann með hnífi í Neskaupstað. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu er rannsókn málsins langt komin en ekki búið að ákveða hvort farið verði fram á lengra gæsluvarðhald.

Þá hefur lögregla enn til rannsóknar árás með eggvopni í Neskaupstað fyrir tveimur vikum.

Verslunarmannahelgin gekk almennt vel í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi. Ökumönnum á Neistaflugi var gefinn kostur á að blása í áfengismæli áður en þeir lögðu af stað og reyndist ekki neinn þeirra sem blésu undir áhrifum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.