Allvíða grátt í fjöll

Íbúar á Austfjörðum vöknuðu allvíða við það í morgun að grátt var í fjöll. Fyrstu vegfarendur yfir Fjarðarheiði og Möðrudalsöræfi þurftu að fara varlega vegna krapa á vegum.

Samkvæmt kortum Vegagerðarinnar var krapi á Háreksstaðaleið og Biskupshálsi fram undir klukkan tíu í morgun. Svipaðar aðstæður munu hafa blasað við þeim fyrstu sem keyrðu yfir Fjarðarheiði í morgun.

Þrátt fyrir þetta hefur umferð gengið áfallalaust, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi.

Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu var á Gagnheiði í nótt þar sem hitastigið fór niður í -1,9 gráðu. Á öðrum veðurstöðvum á Austurlandi hefur hitinn haldist yfir frostmarki, þótt litlu hafi munað í og kringum Möðrudal á Fjöllum.

Kuldanum hefur einnig fylgt úrkoma og strekkingsvindur. Á fyrrnefndum veðurstofum var meðalvindhraðinn í nótt um 15 m/s og víða yfir 20 m/s í hviðum.

Austfirðingar eru vanari veðrum sem þessu um mánuði seinna en nú þannig að veðurfarið verður að teljast óvenjulegt. Kuldapollur úr norðri kom upp að norðurausturhorni landsins um helgina. Þar varð til lægð sem dýpkaði hratt á stuttum tíma sem ber mesta ábyrgð á veðrinu í gær og í dag.

Lægðin ætti að eyðast þegar líður á daginn. Þótt vindinn lægi þar með eru engin hlýindi né sólskin í veðurkortunum fyrir Austurland þessa vikuna.

Séð upp í Gagnheiði í morgun.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.