Allt útlit fyrir verkfall bræðslumanna í kvöld

afl.gifAllt útlit er fyrir að starfsmenn fiskimjölsverksmiðja á Austurlandi leggi niður vinnu klukkan hálf átta. Sáttafundir halda áfram í dag. Segja má að verkfallið sé þegar hafið þar sem loðnuflotinn er kominn til hafnar.

 

Félagsmenn Afls starfsgreinafélags samþykktu vinnustöðvunina með 78% atkvæða í atkvæðagreiðslu í seinustu viku. Samninganefndir bræðslumanna og Samtaka atvinnulífsins sátu á fundi fram á kvöld og nýr fundur hefur verið boðaður í dag.

Segja má að verkfallið sé þegar hafið þar sem stór hluti loðnuveiðiflotans er kominn til hafnar. Aðalsteinn Jónsson landaði tæplega 700 tonnum á Eskifirði í gær og fyrir helgi kom Jón Kjartansson til hafnar með rúmlega 2300 tonn. Beitir NK og Bjarni Ólafsson AK lönduðu á Norðfirði á föstudag.

Um hálfur mánuður er eftir af loðnuvertíðinni en verðmætasti hluti aflans er enn í sjó. Færeysk og norsk verkalýðssambönd hafa lýst yfir stuðningi við íslensku bræðslumennina og útlit er fyrir löndunarbann á íslensk loðnuveiðiskip í löndunum á meðan verkfalli stendur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.