„Allt of margir sem telja að þetta komi sér ekki við“

„Þú þarft aðeins að hafa verið félagi í viku til þess að bjóða þig fram í stjórn og hafa kosningarétt á aðalfundi,“ segir Margrét Árnadóttir, formaður félagasamtakanna Ungt Austurland, en félagið leitar nú eftir einstaklingum til að starfa með félaginu.


Ung Austurland var stofnað fyrir rúmu ári. „UngAust eru frjáls félagasamtök einstaklinga á aldrinum 18 - 40 ára og geta allir á aldursbilinu gerst félagar. Tilgangur þess er að gera Austurland að vænlegum búsetukosti fyrir ungt fólk. Við erum vettvangur og bakland ungs fólks til að koma skoðunum sínum á framfæri,“ segir Margrét.

Aðalfundur UngAust hefur verið boðaður í apríl og þrátt fyrir að það telji á annað hundrað félagsmenn vantar töluvert upp á að framboð til stjórnar fylli þau sæti sem eru að losna í vor. Margrét vill því hvetja ungt fólk á Austurlandi til þess að kynna sér málin.

„Ég held að fólk sé bara eitthvað feimið við þetta, haldi að það sé svo mikið mál að vera í stjórn, sem það er alls ekki. Ég held líka að það séu enn allt of margir sem telja að þetta komi sér ekki við. Þó svo við höfum verið að gera hlutina á ákveðinn hátt hingað til þá erum við enn í mótun ef það kemur einhver nýr inn með nýjar hugmyndir þá er það bara frábært.“

Við þurfum að láta í okkur heyra
Margrét segir að árið hafi verið bæði lærdómsríkt og skemmtilegt. „Ég hef lært alveg ótrúlega mikið, hvernig félagsstörf virka sem og sveitarstjórnarmenningin. Ég hef einnig kynnst fullt af fólki í samfélaginu, þannig að þetta hefur verið mjög gaman og gefandi.

Samtökin hafa aukið samstöðuna meðal unga fólksins á svæðinu, við erum öll að tala saman núna. Við höfum sent frá okkur margar ályktanir sem hafa haft sitt að segja, en við þurfum að sýna hlutunum áhuga og láta í okkur heyra.

Starfamessa framundan
Nóg er framundan hjá UngAust. „Fyrir utan aðalfundinn munum við í samstarfi við SSA halda starfamessu í vor, sem er atvinnu- og menningarsýning og þá vettvangur fyrir fyrirtæki og frumkvöðla að koma og sýna hvað þeir eru að gera. Þar getur ung fólk, bæði í menntaskóla og vinnumarkaði, komið og kynnt sér þá fjölmörgu möguleika sem í boði eru. Það er svo margt í gangi sem maður hefur ekki hugmynd um og þessi stóru fyrirtæki með allskonar störf sem maður þekkir ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar