Allt gengið upp á loðnuvertíðinni hjá Eskju

Verið er að landa síðustu loðnunni úr Jóni Kjartanssyni á Eskifirði. Þar með lýkur loðnuvertíðinni hjá Eskju sem náði öllum sínum kvóta. Útgerðarstjóri fyrirtækisins segir nánast allt hafa gengið upp á vertíðinni.

Jón Kjartansson kom til Eskifjarðar í morgun með rúmlega 1900 tonn. Í gær var landað fullfermi úr Guðrúnu Þorkelsdóttur á Vopnafirði, 1500 tonnum, en skipið hefur landað þar og á Akranesi að undanförnu. Aflann veiddu skipin bæði við Snæfellsnes. Þar hefur verið góður gangur í veiðum að undanförnu en heldur virðist nú vera að hægja á enda loðnan að syngja sitt síðasta.

„Mér skilst að það sé farið að minnka veiðin hjá þeim sem eru þar enn. Ég heyrði samt frá einu áðan sem fékk 200 tonn af hrognaloðnu. Það er samt augljóst að loðnan er farin að hrygna og því ekki margir dagar eftir í hrognaloðnu því karlinn er farinn að veiðast,“ segir Baldur Marteinn Einarsson, útgerðarstjóri Eskju.

Hann segir síðustu veiðiferðina hafa gengið vel hjá Jóni Kjartanssyni, um 700 tonn fengist í stökum hollum sem sé mjög gott þegar svo langt er liðið á vertíðina.

Það endurspeglar vertíðina sem gengið hefur mjög vel. „Það er ekki oft sem allt gengur upp en það virðist hafa gert það núna. Veðrið var almennt gott og truflaði ekki veiðarnar. Fiskurinn var fínn allan tímann, við byrjuðum í Japanshrygnu og færðum okkur svo í hrognatöku í byrjun mars. Það var bara einn farmur sem við lönduðum beint í bræðslu, aðrir hafa farið í gegnum frystihúsið eða hrognaskurð. Ég væri til í svona vertíð alltaf.“

Kapphlaup að ná viðbótarkvótanum


Það eina sem flækti veiðarnar var nærri helmings aukning kvótans í lok febrúar. Síðan hafa veiðiskipin verið á útopnu við að sækja fiskinn. „Það hefur ekkert mátt út af bregða, ef það hefði gert brælu eða orðið verulegt veiðarfæratjón þá hefði það orðið brekka. En veðrið hefur haldist gott og verið hægt að redda brasi með veiðarfæri oftast meðan landað er.“

Kvótinn í ár var töluvert minni en í fyrra. Þá var hins vegar bræla lungann úr vertíðinni og þegar veðrið var í lagi gekk illa að finna fiskinn. Töluvert vantaði því upp á að kvótinn næðist. Nú er búið að veiða yfir 80% hans og áfram er haldið. „Vertíðarnar í fyrra og nú eru eins og svart og hvítt. Vertíðin í fyrra var stærri á pappírunum en það gekk allt á verri veg. Veiðin hefur verið miklu betri núna. Það verður lítið eftir af kvótanum nú, ef eitthvað, þótt það hafi kannski verið öruggt þegar viðbótin kom,“ segir Baldur.

Á vertíðinni tók Eskja í notkun nýjan búnað til hrognavinnslu. „Við lukum nánast við að endurnýja hrognaskurðarbúnaðinn fyrir vertíðina. Við höfum aukið afköst hans töluvert. Búnaðurinn hefur gengið vel, engar truflanir orðið að ráði. Við erum kannski ekki komin með allan þann búnað sem við viljum, en langleiðina því alltaf er hægt að bæta við.“ Sala afurðanna er síðan langtímaverkefni, þær mjatlast út yfir árið en markaðir líta þokkalega út að sögn Baldurs, þótt aukin framleiðsla geti haft áhrif.

Nokkur skip eru enn að veiðum við sunnanvert Snæfellsnes, meðal annars Barði, Víkingur, Venus, Polar Amaroq og Polar Ammassak. Skip Eskju halda næst til kolmunnaveiða sem búist er við að hefjist upp úr miðjum apríl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.