Allir þurfa að berjast við skrímslið undir rúminu

Námskeiðið miðar að því að hvetja ungt fólk til þess að sjá tækifærin og framkvæma hugmyndir. Ég mun fara yfir mína reynslu, hvað hefur virkað fyrir mig og hvað ég er að læra og tileinka mér á hverjum degi,“ segir tónlistamaðurinn Jón Hilmar Kárason verður með spennandi námskeið fyrir nemendur í grunn- og tónlistarskólum Austurlands í haust í samstarfi við Tónlistarmiðstöð Austurlands og Hljóðfærahúsið.


Jón Hilmar Kárason er mikill reynslubolti í faginu, en hann hefur kennt við Tónskóla Neskaupstaðar síðan 1995 og starfað með mörgum af bestu tónlistarmönnum landsins. Hann hefur einnig staðið fyrir margskonar námskeiðum, viðburðum og tónleikum auk þess að vera umsjónarmaður sjónvarpsþáttarins Baksviðs á N4.

Jón Hilmar segir námskeiðin verða part af BRAS, menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi, þó svo þau teygi sig aðeins út fyrir tímaramma hennar, en þau verða haldin í september og október.

Um tvenns konar námskeið er að ræða, annars vegar er námskeiðið „Taktu sóló“ sem ætlað er fyrir nemendur og kennara tónlistarskólana, en þar verður unnið með sviðshræðslu og spuna. Hins vegar er námskeiðið „GERA! VERA! ÞORA!“ sem hugsað er fyrir eldri nemendur grunnskóla með það að markmiði að hvetja ungt fólk til þess að sjá tækifærin og framkvæma hugmyndir.

„Allir geta tekið sóló“
„Það að spinna merkir að spila eitthvað sem er að litlum hluta ákveðið fyrir fram. Það getur verið mjög ógnvænlegt að standa á sviði og eiga að spila eitthvað sem er í raun ekki til, engar nótur og sviðshræðsla er eitthvað sem allir verða að takast á við. Þetta er í raun það sama og standa upp og tala fyrir hóp af fólki. Eins og við vitum getur það verið eitt það hræðilegasta sem við lendum í en það þarf ekki að vera þannig. Það skiptir engu máli á hvaða hljóðfæri nemendur spila, allir geta tekið sóló og allir ættu prófa,“ segir Jón Hilmar.

GERA! VERA! ÞORA!
„Í framhaldi af námskeiðinu fyrir tónlistarskólana langar mig að hitta eldri bekki grunnskólans og kennarana með. Þar mun ég fjalla um það að framkvæma, þora að gera það og hafa hugrekkið til þess að segja: „Sjáðu, ég bjó þetta til". Ég fer yfir það sem þarf að kljást við, því sama á hvaða stað þú ert þá þarftu að berjast við skrímslið undir rúmi (GERA), þora að kíkja undir rúm (ÞORA) og þá getur þú staðið bein í baki, óhrædd við að sýna það sem þú getur (VERA).“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.