Allir þingmenn Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi vilja halda áfram

samfylkingin.jpg
Allir þingmenn Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi gefa kost á sér til endurkjörs. Fleiri sýna efstu sætunum áhuga. Þannig segist Erna Indriðadóttir, upplýsinga fulltrúi Fjarðaáls, vera að íhuga stöðu sína.

„Já, ég hef ákveðið að gefa kost á mér til áframhaldandi þingstarfa næsta vor fyrir Norðausturkjördæmi, ég mun bjóða mig fram í fyrsta sæti á lista Samfylkingarinnar,“ segir Kristján L. Möller. Hann fór síðast fyrir framboðslista Samfylkingarinnar í kjördæminu og fékk flokkurinn þá þrjá þingmenn. 

Aðalfundur kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verður haldinn á Húsavík á laugardaginn, þar verður væntanlega ákveðið hvernig staðið verður að vali á framboðlista flokksins. 

Sigmundur Ernir Rúnarsson sem var í öðru sæti síðast. Hann vill halda áfram. „Já, ég sækist eftir endurkjöri. Aukin byggðajöfnun er brýnt verkefni, efling sveitarstjórnarstigsins og efnahagsmál verða án efa mikið rædd í aldraganda kosninganna. Sömuleiðis atvinnumál svæðisins og ég vil leggja mína þekkingu og reynslu á vogarskálarnar,“ segir Sigmundur Ernir. 

Jónína Rós Guðmundsdóttir er þriðji þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu og hún vill sömuleiðis halda áfram. „Ég sækist eftir endurkjöri. Í aðdraganda kosninganna er mikilvægt að ræða sérstaklega efnahagsmál, atvinnumál og velferðarmál. Í okkar kjördæmi eru samgöngumálin ofarlega á listanum, einnig atvinnumál og menntamál.“ 
 
Fleiri íhuga framboð þessa dagana. Erna Indriðadóttir upplýsingafulltrúi Alcoa er að hugsa málið. Þeir sem Akureyrarblaðið Vikudagur ræddi við í vikunni við segja hana sterkan kandidat, enda með góðar tengingar í öllu kjördæminu, bæði fyrir austan og norðan. 

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur og lektor við Háskólann á Akureyri er sömuleiðis að kanna jarðveginn. „Ég vil ekkert segja um málið á þessari stundu,“ sagði hún í viðtali við Vikudag. Kristrún hefur lengi starfað innan Samfylkingarinnar og var meðal annars aðstoðarmaður Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur þáverandi utanríkisráðherra. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.