Allar veglínur hafa neikvæð áhrif á gróðurfar við Egilsstaði

Allar þær veglínur sem til greina koma að Egilsstöðum frá fyrirhuguðum Fjarðarheiðargöngum munu hafa talsverð eða verulega neikvæð áhrif á gróðurfar við þéttbýlið.

Sú er niðurstaða Skipulagsstofnunar eftir að hafa farið í þaula yfir umhverfismat Vegagerðarinnar vegna fyrirhugðrar gangagerðar en þrjár leiðir, Norðurleið, Suðurleið og Miðleið, koma til greina að Egilsstöðum frá gangamunnanum.

Í kjölfar kalla þess efnis að minnka umferð, og sérstaklega umferð þungaflutningabíla, í gegnum bæinn gerði Vegagerðin tillögur um þessar þrjár leiðir. Miðleið er lítið breytt eða óbreytt leið frá því sem nú er meðan Norðurleið fer vel norður fyrir bæinn, yfir Eyvindará og tengist Hringveginum rétt austan við flugvöllinn. Suðurleiðin  hins vegar liggur vel sunnan fyrir bæinn eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Eftir yfirlegu telur Skipulagsstofnun, að fengnu áliti Náttúrufræðistofnunar og fleiri opinberra aðila, ljóst að gera þarf töluverðar ráðstafanir til verndar gróðurs sama hvaða leið verður á endanum valin. Stofnunin telur mikilvægt að kortleggja fundarstaði friðaðra fléttutegunda á áhrifasvæðunum en fyrr verði framkvæmdaleyfi ekki gefið út. Einnig þarf að kortleggja allt rask á vot- og skóglendi á Suðurleið svo fyrir liggi hversu mikið þurfi að endurheimta af framkvæmdum loknum en stofnunin telur æskilegt að birkiskógar sem hverfi við verkið verði endurheimtir í kjölfarið og sú endurheimt taki mið af erfðafræðilegum uppruna.

Sömuleiðis þykir fræðingum Skipulagsstofnunar ljóst að ákeyrslum á fugla muni aukast í Egilsstaðaskógi umfram það sem nú er en þar sé að mestu um algengar tegundir að ræða og fugladauði á Fjarðarheiði minnki nokkuð á móti. Áhrif á fuglalíf verði því ekki verulega neikvæð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.