„Aldrei staðið til að fela eitt né neitt“

Til stendur að veita bæjarfulltrúum á Fljótsdalshéraði aðgang að gögnum er varða áætlanir um nýja fráveitu í þéttbýlinu á Egilsstöðum og Fellum. Meirihlutinn í bæjarstjórn telur rétt að stíga varlega til jarðar þar sem um gögn einkahlutafélags sé um að ræða. Tillögu minnihlutans um að vanhæfi bæjarfulltrúa til meðferðar málsins yrði kannað var vísað frá á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku.

Á fundinum fylgdi minnihlutinn eftir tillögu nefndarfulltrúa sinna í umhverfis- og framkvæmdanefnd um aðgang að gögnum og greiningum á öllum valkostum sem skoðaðir hafa verið fyrir framtíðarskipulag fráveitu sveitarfélagsins.

Á fundinum var samþykkt tillaga þar sem bæjarráði er falið að vinna að því að veita bæjarfulltrúum aðgengi. Tillögunni sem fram kom á nefndarfundinum viku fyrr var hins vegar hafnað.

Fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sögðu á fundinum að ekki væri ætlunin að halda gögnum frá einum né neinum. Málið hefði verið til vinnslu hjá stjórn Hitaveitu Egilsstaða og Fella (HEF) sem er í eigu sveitarfélagsins.

Ekki hafi verið ástæða eða þörf að fara að vinna bæði með gögnin inni í umhverfis- og framkvæmdanefnd og stjórn HEF á þessum tímapunkti þar sem hlutverk nefndarinnar var að óska eftir áliti Skipulagsstofnunar á því hvort það væri hlutverk stofnunarinnar eða sveitarfélagsins að vinna umhverfismat á þeim kosti sem fyrir lægi.

Margt skemmtilegt í gögnunum

Gunnar Jónsson, formaður stjórnar HEF, sagði vilja innan stjórnar fyrirtækisins til að gögnin væru opin og það hefði verið rætt með hvaða hætti rétt væri að gera þau aðgengileg. „Gögn varðandi þetta mál eru til frá árinu 2002. Það hefur aldrei staðið til að fela eitt né neitt, þarna er margt skemmtilegt. Hitaveitan er hins vegar einkahlutafélag og við viljum vera með það á hreinu hvernig við komum gögnunum til bæjarfulltrúa þannig ekki sé neitt vesen.“

„Við erum hikandi því við viljum gera hlutina rétt,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, forseti bæjarstjórnar og bætti við að málið gæti mögulega verið fordæmisgefandi.

Sakaði minnihlutann um að þyrla upp moldviðri

Hann gagnrýndi fulltrúa minnihlutans í umhverfis- og framkvæmdanefnd. Hugsunin að baki tillögu þeirra hafi verið skiljanleg en ekki rétti tímapunkturinn til að leggja fram tillögu sem fór í atkvæðagreiðslu á sama tíma og verið væri að spyrja Skipulagsstofnun hver skyldi standa að umhverfismatinu. Réttara væri að kalla eftir gögnum þegar svar stofnunarinnar lægi fyrir.

„Maður veltir fyrir sér hvort tilgangurinn hafi verið að þyrla upp moldviðri í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum yfir hvað allir væru vondir. Við verðum að geta sest niður og fundið út hvað A vill, hvað B vill og fundið lausn. Við getum fellt tillögur og borið upp frávísunartillögur alla daga, þannig er formið en það er kannski ekki besta leiðin.“

Þörf á eigendastefnu fyrir HEF?

Björg Björnsdóttir, bæjarfulltrúi Héraðslistans, sagði nefndarfulltrúana hafa talið að þeir gætu ekki svarað spurningum um matsskyldu án þess að fá frekari gögn. Þeir hafi því verið í fullum rétti til að kalla eftir þeim.

Hún vakti einnig máls á að ekki væri nein eigendastefna hjá sveitarfélaginu gagnvart HEF. „Ég tel fulla ástæðu til að skoða hvort ekki sé rétt að slík stefna sé til. Einhvern virðast samþykktir sveitarfélagsins, sem þó eiga að gilda um fyrirtækið, ekki halda 100%.“

Vildu láta kanna hæfi bæjarfulltrúa

Fyrr í umræðum um fráveituna hafði minnihlutinn lagt fram aðra tillögu þar sem því var beint til forseta bæjarstjórnar að kanna hvort bæjarfulltrúar væru mögulega vanhæfir til að fjalla um tiltekin málefni HEF. Frekari afgreiðsla mála HEF yrði látin bíða þar til könnuninni væri lokið.

Í tillögunni var vísað í ákvæði í samþykktum um stjórn og fundarsköp Fljótsdalshéraðs, sem byggir á sveitastjórnarlögum, um að bæjarfulltrúar, nefndarmenn eða starfsmenn sveitarfélags séu vanhæfir við meðferð og afgreiðslu máls varði málið hann eða nána venslamenn svo sérstaklega að ætla megi að afstaða hans mótist að einhverju leyti þar að. Eins skulu fulltrúar víkja sæti séu þeir maki aðilar, skyldur eða mægður aðila í beinan legg eða að öðrum legg til hliðar.

Í lögunum er enn fremur sú skylda lögð á fulltrúa að þeir veki tafarlaust athygli næsta yfirmanns á því ef hæfi þeirra, eða annarra, orki tvímælis. Nefndin greiðir síðan sjálf atkvæði um vanhæfið og má viðkomandi taka þátt í atkvæðagreiðslunni. Teljist hann vanhæfur skal hann ávallt yfirgefa fundarsal við meðferð þess og afgreiðslu, né hafa áhrif á það með öðrum hætti.

Vanhæfið ekki rökstutt

Stefán Bogi sagði tillöguna ekki í samræmi við reglur sem gildi um afgreiðslu vanhæfis auk þess sem hún væri óljós. „Ef einhver telur að tiltekinn bæjarfulltrúi sé vanhæfur skulu menn tilkynna það í upphafi liðar og greiða atkvæði. Í tillögunni er ekki vísað til þess hvaða bæjarfulltrúa sé um að ræða, til hvers þeir séu vanhæfir né hvers vegna,“ sagði Stefán.

Vegna þessa sagði Stefán Bogi ekki annað hægt en vísa tillögunni frá og bar upp formlega frávísunartillögu. Samkvæmt fundarsköpum frávísunartillaga taka frávísunartillögu strax til umræðu og afgreiðslu og bíða önnur mál á meðan. Sé tillögu vísað frá er umræðum um hana lokið. Það gerðist á fundinum þegar frávísunartillagan var samþykkt með atkvæðum meirihluta gegn atkvæðum minnihluta. Miðað við umræður á fundinum í kjölfarið virtust fundarsköpin koma fulltrúum minnihlutans nokkuð á óvart.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.