Ákvörðun ráðherra kostaði grásleppusjómann allt að þrjár milljónir

Það vakti athygli á framboðsfundi Austurgluggans/Austurfréttar og Fljótsdalshéraðs í gærkvöldi að í eina skiptið sem hiti komst í fundinn var í kringum spurningu um grásleppuveiðar. Helgi Hlynur Ásgrímsson annar fulltrúa Vinstri grænna á fundinum sakaði sjávarútvegsráðherra um skemmdarverk á fundinum. Grásleppusjómaður segir að ákvörðun ráðherrans í vor hafi kostað hann allt að 3 milljónum kr.

Spurningin á fundinum snérist um kvótasetningu á grásleppuveiðar eins og til stendur að gera fyrir næsta ár.

„Það hefur lengi verið blautur draumur sjávarútvegsráðherra að koma grásleppunni í kvóta,“ sagði Helgi Hlynur á fundinum og sakaði síðan ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, um skemmdarverk í vor þegar hann stöðvaði veiðarnar áður en grásleppusjómenn á Austfjörðum höfðu náð að klára veiðidaga sína. Jafnframt kallaði hann athæfi ráðherrans „glæpsamlegt“.

Forsaga málsins er sú að gefin var heimild til að veiða grásleppu í 44 daga á tímabilinu frá 10. mars til 20. júní s.l. Grásleppusjómenn fengu svo mismunandi marga daga í sinn hlut til að sinna veiðunum. Sjávarútvegsráðherra stöðvaði hinsvegar veiðarnar þann 30. apríl þar sem heildaraflinn á grásleppunni var komin að mörkum ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunnar. Því voru þeir sem gerðu út fyrir vestan og norðan búnir að ná sínu en sjómenn fyrir austan sátu eftir með sárt ennið.

Tapaði allt að 3 milljónum kr.

Emil Erlingsson grásleppusjómaður á Vopnafirði segir í samtali við Austurfrétt að þetta hafi verið „alveg glórulaus ákvörðun af hálfu ráðherra“.

„Hann gaf okkur bara tvo daga til að taka inn netin og af þeim var annar dagurinn 1. maí,“ segir Emil sem stundað hefur þessar veiðar frá árinu 1987. „Þar að auki kom tilkynningin um stöðvunina klukkan þrjú á föstudegi. Það er ómögulegt að ná inn netunum á bara tveimur dögum. Hann hefði átt að gefa minnst fimm daga.“

Í máli Emils kemur fram að hann hafi haft leyfi til 22 daga á veiðum af þessum 44 en hann hafi ekki verið búinn að nýta þá nema síður sé frekar en margir aðrir grásleppusjómenn á Austfjörðum.

Aðspurður um fjárhagslegt tjón sitt segir Emil að það hafi verið allt að þremur milljónum króna. Erfitt sé hinsvegar að meta það því mokveiðin fyrir vestan og norðan, sem olli stoppinu, hafi á þeim tíma valdið verðfalli á afurðunum.

Hvað álit á kvótasetningunni varðar segir Emil að eins og með allar slíkar ákvarðanir muni einhverjir tapa og einhverjir hagnast.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.