Áfram bjartsýn á millilandaflug um Egilsstaði

María Hjálmarsdóttir, verkefnastjóri hjá Austurbrú, er bjartsýn á að millilandaflug komist aftur á um flugvöllinn á Egilsstöðum á næstu árum þótt Discover the World hafi ákveðið að halda ekki áfram áætlunarflugi sínu. Dýrmæt reynsla hafi orðið til í sumar.


„Ég hefði að sjálfsögðu viljað að flugið hefði haldið áfram næsta sumar. Þegar maður vinnur að stórum þróunarverkefnum þá auðvitað koma upp áskoranir eins og þessi –af henni lærum við þó og höldum áfram,“ segir María.

Vefurinn Túristi greindi frá því í dag að breska ferðaskrifstofan sem stóð fyrir níu áætlunarflugum milli Egilsstaða og Lundúna síðasta sumar hafi ákveðið að halda ekki áfram næsta sumar. Ástæðan sé harðnandi samkeppni á flugleiðinni til Keflavíkur og óhagstæð gengisþróun. María segir það ytri ástæður sem ekki verði við ráðið.

Skipti sköpum að reyna á þjónustuna

Dýrmæt reynsla hafi fengist með fluginu í sumar. „Það að láta reyna á þjónustuna og annað skiptir sköpum í viðræðum okkar áfram. Við erum að byggja um ferilskrá fyrir völlinn og hann fær topp einkunn eftir sumarið.

Sú mikla vinna sem unnin var í tengslum við þetta flug mun nýtast í næstu tækifæri. Austfirsk ferðaþjónusta er að eflast og þetta með flugið í sumar var hvetjandi fyrir þá aðila hvað varðar gæðamál, vöruþróun og samstarf. Það er bara af hinu góða.

Við stefnum af því að halda áfram þróun á áfangastaðnum og að flug í framtíðinni verði á sjálfbærum forsendum. Með því að byggja upp áfangastaðinn, og keyra á ákveðna sýn munum við verða eftirsóknaverð fyrir flugfélög og með þessa reynslu í sumar höfum við ákveðna þekkingu sem mun nýtast áfram.“

Sumarið skiptir ekki mestu máli

María óttast ekki neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna eystra þar sem flugin voru á háannatíma. Þá sé Discover the World síður en svo hætt að selja ferðir austur.

„Discover the World mun ennþá selja pakka austur á land og stýra farþegum í gegnum Keflavík. Hótel á Austurlandi eru mikið bókuð á sumrin og er nú algjört kappsatriði að skoða axlamánuði og veturinn og stuðla að fjölbreyttri vöruþróun á þeim árstíðum.

Þá er skrifstofan er að skoða flug fyrir skólahópa yfir veturinn, jafnvel á næsta og þarnæsta ári og það verður spennandi að fylgjast með því.“

Stórt verkefni að byggja upp aðrar flugleiðir

Þótt líftími þessa flugs hafi ekki orðið nema eitt sumar heldur vinnan áfram við að byggja upp millilandaflug um Egilsstaði.

„Það að koma á millilandaflugi á aðra velli en Keflavík er verulega stórt verkefni sem hefur áhrif á ferðaþjónustuna í landinu. Bæði Norður- og Austurland vinna að kappi af því að ná inn flugi og það mun takast á næstu árum það er ég viss um

Við erum afar bjartsýn á millilandaflug á Egilsstaði á næstu árum. Við höldum ótrauð áfram og erum nú þegar að skoða aðra möguleika.“

María segir skipta máli að búið sé að koma á laggirnar markaðs- og leiðaþróunarsjóði með framlögum úr ríkissjóði. Inn í það samstarf koma Íslandsstofa, Isavia og Norðurland. Vonir standa til að auglýst verði eftir umsóknum fyrir áramót um leið og farið verður í herferð til að kynna verkefnið og ná inn flugfélögum. „Þá komum við saman sem sterk heild sem mun hvetja flugfélög að skoða þessa möguleika.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar