AFL: Fullyrðingar um ofurlaun bræðslumanna kjaftæði

afl.gifSverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinasambands, segir það þvætting að starfsmenn í fiskimjölsverksmiðjum séu á ofurlaunum. Þau rök sem Samtök atvinnulífsins hafi haldið fram í málflutningi sínum í samningaviðræðum við bræðslumennina haldi ekki vatni.

 

Þetta fullyrðir í Sverrir í pistli sem hann ritar á heimasíðu AFLs. Bræðslumenn á Austurlandi og í Vestmannaeyjum hafa boðað til verkfalls eftir næstu helgi. Verkfall sem átti að hefjast í gær var í seinustu viku dæmt ólögmætt. Samtök atvinnulífsins hafi lýst yfir áhyggjum af afleiðingum væntanlegs verkfalls á afkomu sjávarútvegsfyrirtækja og þjóðarbúið.

Í pistlinum kemur fram að starfsmaður í fiskimjölsverksmiðju, með sjö ára starfsreynslu og námskeið í greininni, hafi 235.900 krónur í mánaðarlaun. Tekjurnar geti þó aukist í góðum árum þegar vel veiðist. Í umfjölluninni hafi ekki verið tekið tillit til vinnutíma og vinnuframlags.

„SA hefur tekist að láta bræðslumenn líta út nánast eins og frekjur sem heimta allt af öðrum og að verði látið undan kröfum þeirra þá fari allt á hliðina í landinu og verðbólga fari í nýjar hæðir og aðrir launþegar fái þá ekkert í sinn hlut.

Ekkert af þessu heldur vatni. Í fyrsta lagi taka bræðslur og annar útflutningur nú til sín „ofsagróða“ meðal annars með háu afurðaverði og gengisskráningu í sögulegu lágmarki.“

Sverrir segir bræðslumenn vilja hluta af þessum hagnaði. Krafan er 27% en á samningafundi hjá Ríkissáttasemjara á laugardag sögðust bræðslumenn tilbúnir að sætta sig við 7,5% hækkun fram í nóvember.

Sverri finnst gróft að tala um að annað launafólk borgi brúsann ef af hækkunum verður. „Í dag rennur gróðinn óskiptur til eigenda og til fjárfestinga innan lands eða utan – eða er greiddur út sem arður til hluthafa. Okkur er ekki kunnugt um að annað launafólk njóti gróðans núna né heldur að áformað sé að gróða bræðslanna eða útflutningsins sé ætlað að renna annað en í vasa eigenda.“

Sverrir efast um samningsvilja Samtaka atvinnulífsins og segir gagntilboðin sem lögðu voru fram á laugardag vart hafa verið marktæk.

„Síðastliinn laugardag gengu bræðslumenn á fund SA með hóflegt tilboð – tilboð sem trúnaðarmenn samþykktu  - ekki með glöðu geði – heldur til að freista þess að ná raunhæfum samningi. Með því að hafna því án raunverulegs gagntilboðs kastaði SA grímunni og verði verkfall má rekja það beint til SA – ekki til bræðslumanna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.