Afar ánægð með samstarfið við LVF og KFFB

„Við erum afar ánægð með samstarfið við Loðnuvinnsluna (LVF) og Kaupfélag Fáskrúðsfjarðar (KFFB) og teljum okkur lánsöm að hafa Kaupfélagið sem fjárfestir í fyrirtækinu,“ segir dr. Holly Kristinsson, forstjóri Responsible Foods, en hún og eiginmaður hennar dr. Hörður Kristinsson voru nýlega á ferðinni á Fáskrúðsfirði og raunar víðar á Austurlandi. Tilgangur ferðarinnar var að kynna forráðamönnum Loðnuvinnslunnar og Kaupfélagsins ásamt félagsmönnum stöðuna og það sem er framundan hjá Responsible Foods.

„Við erum komin með átta vörutegundir í íslenskar verslanir og þrjár á erlenda markaði, það er í Bandaríkjunum og Singapore. Sem stendur erum við að setja inn vörulínu okkar hjá Amazon.com,“ segir Holly.

Fram kemur í máli hennar að hingað til hafi þau búið til vörur, það er heilsunasl, úr skyri og ostum undir vörumerkinu Næra. Sú starfsemi er í Sjávarklasanum í Reykjavík. Af þessum átta vörutegundum eru þrjár byggðar á skyri, fjórar á ostum og ein sem er blanda af ostunum sem þau nota.

Næra vörurnar eru nú til sölu m.a. í Nettó, Bónus, Hagkaup, Heimkaup og aha.is ásamt smærri verslunum um allt land.

Á þessu ári fer svo framleiðslan á nasli úr fiskmeti í gang á Fáskrúðsfirði þar sem verið er að koma upp vinnslulínu. Þurrkarinn fyrir þá vinnslu er kominn til landsins og á leið austur.

„Framleiðslan á Fáskrúðsfirði mun verða með um þrjá starfsmenn til að byrja með. Ef okkar áætlanir ganga eftir reiknum við með talsverðri fjölgun starfa í náinni framtíð.,“ segir Holly.

Heiður að vera á Fáskrúðsfirði

„Það var heiður fyrir okkur hjónin að vera boðið á aðalfund Loðnuvinnslunnar og Kaupfélags Fáskrúðsfjarðar og fá að ræða framtíðaráætlanir okkar,“ segir Holly.

„Við reiknum með að Næra vörumerkið okkar muni ganga vel, bæði á innlendum og erlendum mörkuðum. Við erum þegar með nasl í sölu á netinu í Bandríkjunum og Singapore en í Singapore erum við í samstarfi við Tríton sem er að hluta til í eigu Loðnuvinnslunnar.“

Fram kemur að á fundinum hafi viðstöddum verið boðið upp á Næra nasl sem búið er til úr þurrkuðum ostum og þorski. Holly segir að allir hafi verið ánægðir með naslið.

„Einhverjir höfðu orð á því hvað þorsknaslið varðar að því fylgir ekki lykt eins og harðfisk,“ segir Holly.

Það hefur áður komið fram í Austurglugganum að hvað varðar naslið sem framleitt verður á Fáskrúðsfirði hafi Responsible Foods fundið upp aðferð sem losar naslið við sterku fisklyktina sem fylgir harðfiski. Þar að auki muni þurrkunin á hráefninu aðeins taka um 30 mínútur í stað 2 til 3 daga í hefðbundinni vinnslu. Samt sem áður muni vörur þeirra hafa “hillulíf” upp á 2 til 3 ár eftir að þau koma á markaðinn.

Kom til landsins 2015

Dr. Holly Kristinsson kom til landsins árið 2015 og fór að vinna hjá Matís. Þar var eiginmaður hennar Hörður, einnig að vinna á þeim tíma eftir dvöl í Bandaríkjunum. Árið 2019 stofnaði Holly svo Responsible Foods og hjólin fóru að rúlla.

Áður hefur komið fram að Holly er fædd og uppalin í Alaska þannig að hún veit hvernig góður fiskur er á bragðið. Og hún telur að íslenski fiskurinn hvort sem það er þorskur, ýsa, lax, makríll eða eitthvað annað sé sér á báti hvað gæði varðar.
Starf Responsible Foods hefur vakið athygli hérlendis. Þannig má nefna að í síðustu viku var fyrirtækið eitt af átta matvælafyrirtækjum sem hlutu frumkvöðlastyrk hjá Högum.

Í tilkynningu frá Högum segir að átta frumkvöðlafyrirtæki hafi hlotið styrk að verðmæti 11 milljóna króna til að vinna að nýsköpunarverkefnum í matvælaiðnaði.

Hagar stofnuðu í apríl nýsköpunarsjóðinn Uppsprettuna sem ætlaður er til stuðnings við frumkvöðla til þróunar og nýsköpunar í íslenskri matvælaframleiðslu. Sjóðurinn leggur sérstaka áherslu á að verkefnin sem að hljóta styrkveitingu taki tillit til sjálfbærni og styðji innlenda framleiðslu.

Með sjálfbærni að leiðarljósi

Fram kemur í máli Holly segir að þau hafi ætíð lagt höfuðáherslu á að starfsemi þeirra hérlendis sé sjálfbær og umhverfisvæn. “Þannig náum við til breiðs hóps af kúnnum erlendis sem láta sig umhverfismál varða,” segir Holly.

Hvað fisknaslið varðar segir Holly að þau hafi fundið upp aðferð sem losar naslið við sterku fisklyktina sem fylgir harðfiski. Þar að auki muni þurrkunin á hráefninu aðeins taka um 30 mínútur í stað 2 til 3 daga í hefðbundinni vinnslu. Samt sem áður muni vörur þeirra hafa “hillulíf” upp á 2 til 3 ár eftir að þau koma á markaðinn.

Fram kemur í máli Holly að fyrirtækið stefni jafnt á alla þrjá helstu markaði heimsins, það er vestan hafs, Asíu og Evrópu. “En það mun verða alveg rauður þráður í okkar vinnu að um íslenskt hráefni og vinnslu er að ræða,” segir Holly. “Íslenskur fiskur er einfaldlega topphráefni og á því munum við byggja.”

Mynd. Þau hjónin ásamt Friðriki Má Guðmundssyni framkvæmdastjóra Loðnuvinnslunnar, Elvari Óskarssyni stjórnarformanni og Arnfríði Eide Hafþórsdóttur verkefnastjóra hjá Austurbrú.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.