Ætla að taka á ólátabelgjum í strætó

„Það er búið að funda með fólki hjá Múlaþingi sem taka þetta alvarlega og ætla að koma skilaboðum til kennara og foreldra,“ segir Hlynur Bragason, eigandi rútufyrirtækisins Sæta, sem gerir meðal annars út strætisvagninn á milli Egilsstaða og Fellabæjar.

Skrif Hlyns á fésbókarvef Íbúa Fljótsdalshéraðs í síðustu viku hafa vakið athygli en þar óskar hann liðsinnis forelda og forráðamanna vegna slæmrar umgengni um strætisvagninn. Hegðun tiltekinna aðila og hópa sé engan veginn sæmandi og illa sé komið fram við erlendan bílstjóra vagnsins sem hafi þess vegna íhugað að hætta störfum. Þar sé meðal annars um að ræða að ungmennin hangi í slánum og stundi jafnvel hlaup eftir vagninum þegar hann sé á ferð.

Hlynur segir að í kjölfar skrifa sinna í síðustu viku virðist sem einhverjir hafi séð að sér og ástandið í vagninum hafi batnað frá því sem var. Hann fór þó á fund hjá fræðslufulltrúum Múlaþings á föstudaginn var og kynnti þeim stöðuna. Þar ætla menn einnig að láta foreldra vita og taka á þessu.

Hlynur segir að því miður sé þetta vandamál sem komi upp aftur og aftur og sé beinlínis orðið þess valdandi að erfitt sé orðið að fá gott og hæft fólk til starfa til aksturs. Hann biðlar til ungmennanna, og foreldra sérstaklega, að hlýða reglum í strætisvagninum því ekki þarf að spyrja að hættunni ef bílstjóri þarf fyrirvaralaust að bregðast við utanaðkomandi aðstæðum. Slíkt gæti endað illa.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.