Ætla að markaðssetja Fjarðabyggð sem miðstöð orkuskipta á Íslandi

Uppbygging orkugarðs á Reyðarfirði er efsta málið í málefnasamningi nýs meirihluta Fjarðalista og Framsóknarflokks í Fjarðabyggð. Skoða á möguleikann að mynda þróunarfélag utan um vinnuna.

Þegar komið er að upptalningu um málefni í samkomulaginu er orkugarðurinn efstur á blaði og hann sagður forgangsmál. Markmiðið sé að markaðssetja Fjarðabyggð sem miðstöð orkuskipta á Íslandi.

Grunnhugmyndin að orkugarðinum er að framleiða eldsneyti með að kljúfa vetni út úr vatni með rafmagni en slíkt eldsneyti er talið gegna lykilhlutverki til að knýja stærri farartæki, svo sem skip og flutningabíla, til framtíðar.

Danski fjárfestingasjóðurinn CIP hefur verið leiðandi í hugmyndunum ásamt Fjarðabyggð og Landsvirkjun ásamt fyrirtækjum sem nýtt geta afurðir eða komið upp tengdri starfsemi á svæðinu. „Við finnum mikinn áhuga vítt og breitt á orkugarðinum og eigum samskipti við ýmsa aðila,“ segir Jón Björn Hákonarson, bæjarstjóri og oddviti Framsóknar.

Hann segir viðræður um lóðasamning undir orkugarðinn í gangi sem og um samstarfið við CIP.

Í meirihlutasamningnum segir að á fyrsta ári nýs kjörtímabils verði greindir kostir þess að mynda þróunarfélag utan um verkefnið. „Við sjáum fyrir okkur að hægt sé að sækja fram á við með því,“ segir Stefán Þór Eysteinsson, oddviti Fjarðalistans.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.