Adolf Guðmundsson lætur af störfum hjá Síldarvinnslunni

Adolf Guðmundsson lét um síðustu mánaðarmót af störfum sem rekstrarstjóri Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði. Hann hefur starfað við fiskvinnslu og útgerð á Seyðisfirði í meira en fjörtíu ár.

Rætt er við Adolf í tilefni tímamótanna á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar rifjar hann upp að hann hafi komið 19 ára gamall til Seyðisfjarðar árið 1973, upphaflega ráðinn til að þjálfa handbolta og fótbolta hjá Huginn. Fótboltann hafi hann þjálfað í tvö ár en handboltann í fimmtán með ágætum árangri.

„Ég byrjaði að starfa í frystihúsinu á Seyðisfirði árið 1974 og segja má að ég hafi verið viðloðandi húsið meira og minna frá þeim tíma. Á Seyðisfirði kynntist ég konunni minni, Theodóru Ólafsdóttur, en hún er dóttir Ólafs Ólafssonar útgerðarmanns. Þannig tengdist ég útgerðinni og fiskvinnslunni á staðnum órjúfanlegum böndum,“ segir Adolf.

Hann varð síðar framkvæmdastjóri útgerðarfélagsins Gullbergs árið 1982 og var það þar til Síldarvinnslan keypti það haustið 2015. Hann fylgdi einnig eftir rekstri frystihússins á staðnum um álíka langt skeið, en nokkrir eigendur hafa verið að honum.

„Í sannleika sagt hefur útgerðin yfirleitt gengið vel en rekstur frystihússins oft verið erfiður eins og sést á alltíðum eigendaskiptum. Það var til dæmis erfitt að upplifa gjaldþrot Fiskvinnslunnar árið 1989 en þá fór fyrirtækið afar illa á skreiðarævintýri sem orsakaði mikið tap,“ rifjar Adolf upp.

Auk þessa hefur Adolf komið að ýmsum félagsstörfum innan sjávarútvegsins og var meðal annars formaður Landssambands íslenskra útvegsmanna í fimm ár. „Það er gott að hafa komið víða við og öll þessi störf auka víðsýni manns.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.