Aðstoð við heimferð í fyrsta sinn frá 2001

Virkja þurfti tryggingar hjá Ferðamálastofu til að koma farþegum á vegum Ferðaskrifstofu Austurlands (FA Travel) heim frá Alicante í lok apríl eftir að skrifstofan fór í rekstrarstöðvun. Ekki hefur þurft að grípa til slíkra aðgerða í tæp tuttugu ár.

Þetta kemur fram í svari Ferðamálastofu við fyrirspurn Austurfréttar. Ferðamálastofa felldi í lok apríl niður ferðaskrifstofuleyfi FA Travel eftir að fyrirtækið fór í rekstrarstöðvun.

Fyrirtækið stóð þá fyrir ferð til Alicante á Spáni sem í voru fyrst og fremst Austfirðingar enda flogið beint frá Egilsstöðum.

Samkvæmt lögum um ferðmál er ferðaskrifstofum skylt að vera með tryggingar fyrir endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur þegar greitt vegna alferðar sem enn er ófarin, eða heimflutnings hans komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar.

Virkja þurfti þessa tryggingu til að koma hluta hópsins heim til Íslands. Afar sjaldgæft er að þessi staða komi upp en það gerðist síðast þegar Samvinnuferðir-Landsýn fóru í gjaldþrot síðla árs 2001.

Í kjölfarið sendi Ferðamálastofa út áskorun til þeirra viðskiptavina sem töldu sig eiga inni kröfu á FA Travel um að leggja fram skriflegar kröfulýsingar í tryggingaféð. Frestur til að skila inn kröfum rann út í lok júní. Ekki liggur fyrir hve margar kröfur bárust eða hver heildarupphæð þeirra er en málið er í vinnslu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar