Orkumálinn 2024

Aðhald eða viðhald?

Minnihluti Seyðisfjarðarlistans sótti að meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks út af skorti á viðhaldi í bænum á framboðsfundi á þriðjudagskvöld. Meirihlutinn hamraði hins vegar á góðum árangri í fjármálum.

„Aðhald og sparnaður hefur leitt af sér betra skuldahlutfall. Það er glæsilegur árangur en þegar rýnt er í tölurnar standa Seyðfirðingar eftir með bæ með viðhaldsþörf upp á hundruð milljóna króna,“ sagði Hildur Þórisdóttir, oddviti Seyðisfjarðarlistans.

Vilhjálmur Jónsson, bæjarstjóri og leiðtogi Framsóknarmanna og frjálslyndra, lagði áherslu á að stórlækkað skuldahlutfall sveitarfélagsins. Reksturinn hefði verið réttur af svo eftir hefði verið tekið og sá árangur væri grunnurinn að bjartsýni á næstum árum.

Langtímaskuldir hefðu verið lækkaðar um 450 milljónir en á sama tíma hefði verið settar 280 milljónir í framkvæmdir og viðhaldsverkefni fyrir „tugi milljóna.

Sparnaðurinn í raun enginn?

Bæði Vilhjálmur og talsmenn Sjálfstæðisflokksins lögðu áherslu á að gerða yrðu langtímaáætlanir um bæði framkvæmdir og viðhald til að forgangsraða verkefnum. „Við viljum gera áætlanir frekar en setja plástra á vandamálin,“ sagði Skúli Vignisson, Sjálfstæðisflokki.

Rúnar Gunnarsson, annar maður á lista Seyðisfjarðarlistans, vandaði meirihlutanum ekki kveðjurnar. „Með uppsafnaðri viðhaldsþörf er sparnaðurinn enginn. Ástand fasteigna er hræðilegt og göturnar á gjörgæslu. Maður tiplar á tánum milli holanna og hoppar milli gangstéttarstubbanna sem enginn skilur,“ sagði hann.

Spurt var út í viðhald íþróttamannvirkja og fram kom að til standi að fara í viðhald á sparkvellinum í sumar. Mikið hefur verið rætt um knattspyrnuvöllinn en í hann hafa verið ætlaðar 15 milljónir í sumar. Fulltrúar meirihlutans fullyrtu að farið yrði þar í framkvæmdir en Rúnar efaðist um það. „Með framlagi frá KSÍ er komnar 22 af þeim 50 milljónum sem fjármagnað er. Mér skilst að útilokað sé að fjármagna restina í sumar. Við viljum frekar bíða með framkvæmdirnar og vinna verkið betur.“

Svigrúm til að bæta í

Frambjóðendur voru einnig spurðir út í styrki við félagasamtök svo sem íþróttafélagið Huginn og björgunarsveitina Ísólf sem og menningarmiðstöðina Skaftfell.

Vilhjálmur svaraði því til að almennt hefði verið haldið aftur af hækkunum styrkja en færið væri til að endurskoða það með batnandi fjárhag. Bæði hann og aðrir frambjóðendur viðurkenndu þörf á hækkun til Skaftfells, sem fengið hefur sömu krónutöluna, fjórar milljónir frá bænum og annað eins frá ríkinu, undanfarin tíu ár meðan neysluvísitala hefur hækkað. Þeir töldu þó mikilvægt að hækkun kaupstaðarins fylgdi hækkun ríkisins. „Það er mikilvægt til að ríkið skili ekki auðu ef bærinn bætir í,“ svaraði Vilhjálmur.

Mikilvægt að sækja á ríkið

Frambjóðendur bentu á samskipti við ríkið á fleiri sviðum. Þannig töluðu frambjóðendur meirihlutans í framsöguræðum sínum um að verja þyrfti opinber störf á staðnum, bæði til að koma í veg fyrir skerðingu á þjónustu og færri atvinnutækifærum.

Þá voru framboðin spurð í hvernig þau ætluðu að tryggja þjónustu Heilbrigðisstofnunar Austurlands á staðnum. Arnbjörg Sveinsdóttir, Sjálfstæðisflokki, sagði að í gangi væri stöðugt samtal við stofnunina til að reyna að tryggja að alltaf væri til staðar læknir á Seyðisfirði. Eins væri reynt að fjölga komum sérfræðinga til að nýta aðstöðuna á Seyðisfirði.

Spurning barst úr sal um búsetukjarna fyrir fatlaða. Vilhjálmur svaraði því að vísbendingar væru um þörf á íbúðum en slíkur kjarni yrði alltaf byggður upp í samvinnu við ríkið, líkt og hjúkrunarheimilin.

Elfa Hlín Pétursdóttir, Seyðisfjarðarlistanum, benti á að sækja þyrfti á ríkið varðandi viðhald gömlu húsanna á Seyðisfirði. „Byggingar í opinberri eigu eru sumar hverjar í versta ástandinu, einkaaðilar hafa haldið sínum húsum við. Það er ekki bara okkar Seyðfirðinga að sjá til þess að þeim sé sómi sýndur.“

Hlusta má á fundinn í heild sinni á Tölvuskjánum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.