Aðeins einn þéttbýlisstaður með viðunandi hreinsun á fráveitu

Aðeins einn þéttbýlisstaður á Íslandi er með viðeigandi hreinsun á fráveitukerfi en margir með enga. Úrbóta er þörf á Austurlandi sem annars staðar.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu fráveitumála á Íslandi en á tveggja ára fresti eru tekin saman gögn frá þéttbýlisstöðum þar sem losun er yfir 2.000 persónueiningar, en þeir eru 28 talsins.

Kröfur um hreinsun fara eftir því hver lokaáfangi skólpsins er, meiri kröfur eru gerðar renni það út í á eða árósa heldur en ef því er dælt beint út í sjó. Aðeins eitt þéttbýli hérlendis telst uppfylla kröfur um hreinsun.

Í þessum bæjum búa 88% landsmanna. Mest af skólpinu er grófhreinsað, 83%, 1% fer í gegnum eins þreps hreinsun, 2% í gegnum tveggja þrepa en 14% rennur óhreinsað út.

Engin hreinsun í Neskaupstað

Enginn þeirra þriggja staða af starfssvæði Heilbrigðiseftirlits Austurlands, sem úttekt er gerð á, uppfyllir kröfurnar. Egilsstaðir og Fellabær eru þó á rétti leið þar sem verið er að byggja nýja skólphreinsistöð með tveggja þrepa hreinsun. Krafa um gerð um slíkt þar sem skólp er losað út í Lagarfljót. Í dag er 60% skólps af svæðinu hreinsað með tveggja þrepa hreinsun en 40% með eins þreps. Fram kemur að skólplosun sé oft á yfirfalli þar sem hreinsivirki anni ekki því magni vatnsblandaðs skólps sem í þau fari.

Í Neskaupstað er er engin hreinsun og margar útrásir frá þéttbýlinu. Þar er dælt út í sjó og gerð krafa um grófhreinsun.

Á Höfn í Hornafirði fer skólpið út í árósa og því er gerð krafa um tveggja þrepa hreinsun. Sveitarfélagið er eitt af tíu í landinu sem sótt geta um undanþágu á þeim forsendum að losað sé út í síður viðkvæman viðtaka. Þá lækka kröfurnar niður í eins þreps hreinsun. Sveitarfélagið á að skila inn slíkri ósk fyrir lok árs 2025. Engin hreinsun er á fráveitunni á Höfn í dag en unnið að því að samtengja allt kerfið inn á eina hreinsistöð með grófhreinsun.

Skoða þarf útrásir

Í skýrslunni segir að enn sé töluverðra úrbóta þörf í fráveitumálum hérlendis, samkvæmt skýrslu sem gefin var út í vor samhliða staðfestingu fyrstu vatnaáætlunar landsins er fráveita metin helsti álagsþáttur á vatn á Íslandi. Þrýst er á sveitarfélög að fylgjast betur með árangri í hreinsun og hvort hún uppfylli kröfur. Fram kemur að mikið vanti upp á þetta innra eftirlit, ekkert þeirra þéttbýla sem skyldað er til að hafa tveggja þrepa hreinsun uppfyllti kröfur um vöktun.

Einnig er komið inn á kröfur um lengd og staðsetningu útrásar en hún þarf að ná nógu langt út í viðtaka að góð dreifing og þynning sé tryggð. „Losun skólps beint í fjörur eða hafnir er ekki bara ógeðfelld heldur getur haft skaðleg áhrif á heilsufar fólks og dýra,“ segir í skýrslunni. Ekki hefur farið greining á hvort útrásir standist kröfur en upplýsingar frá heilbrigðisfulltrúum sýna að „mjög margar“ þeirra uppfylla ekki kröfur.

Verðmæti í seyru

Aftast í samantekinni er vikið orðum að efninu sem verði eftir að lokinni grófhreinsun, seyru. Þrjú sveitarfélög skiluðu upplýsingum um magn hennar, Egilsstaðir, Garðabær og Hveragerði. Alls söfnuðust 154 tonn í þurrvigt.

Bent er á að í þeim séu fólgin næringarefni á borð við köfnunarefni og fosfór sem fari til spillis á við losun í sjó á sama tíma og náttúrulegar fosfórbirgðir jarðarinnar minnki. „Því er mikilvægt að huga betur að nýtingu þessarar auðlindar t.d. til landgræðslu eða gasframleiðslu í stað urðunar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.