Aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi

52. aðalfundur Sambands sveitarfélaga á Austurlandi (SSA) var haldinn á Hallormsstað síðastliðna helgi. Kjörnir fulltrúar þeirra sjö sveitarfélaga sem mynda landshlutasamtökin samþykktu á fundinum sameiginlegar ályktanir landshlutans. Þá voru afhent Menningarverðlaun SSA 2018 og heiðursgestur úr hópi sveitarstjórnarmanna heiðraður.


Fundinn sóttu fulltrúar allra sveitarfélaga á Austurlandi auk þess sem nokkrir þingmenn kjördæmisins og fleiri gestir sátu fundinn. Dagskrá fundarins markaðist af fjölda nýrra fulltrúa en talsverð endurnýjun varð í sveitarstjórnarkosningunum á vordögum. Áhersla var á kynningu á SvAust, starfsemi Austurbrúar, framkvæmd áhersluverkefna Sóknaráætlunar Austurlands tengdum menningu, áfangastaðnum Austurlandi og Svæðisskipulagi Austurlands. Auk þess kynnti Karl Björnsson framkvæmdastjóri starfsemi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Hólmfríður Sveinsdóttir sérfræðingur hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sagði frá Sóknaráætlun.

Heiðursgestur í kvöldverði á aðalfundinum var Broddi Bjarnason fyrrverandi formaður SSA og bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði. Menningarverðlaun SSA voru einnig afhent en þau hlaut Breiðdalssetur.

Að venju var samþykkt ályktana megin verkefni fundarins, en þær móta stefnu landshlutans á öllum sviðum. Í ályktunum er mikil áhersla lögð á að þjónusta við íbúa Austurlands verði ásættanleg, hvort sem er í heilbrigðisþjónustu, samgöngum eða menntamálum og að jöfnuður ríki meðal landsmanna t.d. varðandi flutningskerfi raforku og húshitunarkostnað.

Á fundinum var ný stjórn kjörin en hana skipa: Einar Már Sigurðarson, Fjarðabyggð, Gauti Jóhannesson, Djúpavogshreppi, Gunnar Jónsson, Fljótsdalshéraði, Hildur Þórisdóttir, Seyðisfirði, Pálína Margeirsdóttir, Fjarðabyggð, Sigíður Bragadóttir, Vopnafjarðarhreppi og Stefán Bogi Sveinsson, Fljótsdalshéraði. Á fyrsta fundi stjórnar var Einar Már Sigurðarson kjörinn formaður.

Broddi Bjarnason 1200

Broddi Bjarnason fyrrverandi formaður SSA og bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar