Að allir standi saman um samgöngubætur og láti af hrepparíg

Miðstjórn Ungs Austurlands hefur sent frá sér ályktun þar sem hún lýsir yfir vonbrigðum með rýran hlut Austurlands í samgönguáætlun og að þær samgöngubætur sem Austfirðingum hefur verið lofað færist enn á ný aftar á lista forgangsverkefna. Nauðsynlegt sé að tryggja öruggar samgöngur um fjórðunginn allann, allt árið.


Í ályktuninni segir að nauðsynlegt sé að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar sem fyrst og bæta samgöngur um syðstu svæði Austfjarða og við restina af fjórðungnum. Þetta séu framkvæmdir sem þoli enga bið. Eins þurfi að horfa til vegabóta á Suðurfjarðavegi sem nú er hluti af þjóðvegi 1.

Ungt Austurland hvetur til þess að þessum framkvæmdum verðir flýtt á samgönguáætlun og ríkið nýti sér bættar samgöngur sem hvata til aukinna sameininga sveitarfélaga. Þá hvetur Ungt Austurland sveitarstjórnarfólk á Austurlandi til að sýna samstöðu og vinna að sameiginlegri forgangsröðun þessara vegbóta, fjórðungnum öllum til heilla.

Hvað telja stjórnarmenn að hægt sé að gera í stöðunni?
„Félagið vill sjá að staðið verði við það sem fram kemur í samgönguáætlun og framkvæmdir ekki endalaust færðar aftur í forgangsröðum í hvert einasta skipti sem hún er endurskoðuð.

Við viljum að sveitarfélög og sveitarstjórnarmenn á Austurlandi komi sér saman um kröfugerð til ríkisins um samgöngubætur á Austurlandi. Að þeir standi svo með þeirri kröfugerð og fari ekki að tala gegn henni opinberlega og gefi þannig ríkinu möguleika á að fresta framkvæmdum vegna þess að „ekki sé samstaða hjá heimamönnum“ um forgangsröðun framkvæmda. Þetta á einnig við um okkur fólkið sjálf, að standa saman og hætta öllum hrepparíg,“ segir Sigurður Borgar Arnaldsson, gjaldkeri félagsins.




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.